Byggingaverkfræðingurinn Sigurður Sigurðsson hefur áhyggjur af göllum í íslenskum fasteignum. Þetta kemur fram í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hann segir algengustu gallamálin varða leka og myglu í íbúðarhúsnæði, en það getur valdið miklu eignatjóni og heilsubresti. Sigurður kallar eftir því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun grípi til aðgerða vegna málsins, en hann telur stöðuna ansi alvarlega.
„Undanfarin ár hefur umræða um byggingagalla í landinu verið fyrirferðarmikil enda hafa komið upp mörg alvarleg gallamál í fasteignum. Einna mest áberandi eru gallamál vegna leka og myglu íbúðarhúsnæðis enda fylgir því ástandi mikið eignatjón og oft gríðarlegur heilsubrestur þeirra sem hafa lent í því.“
Sigurður minnist á umfjöllun Kveiks um þetta ástand og minnist á orð Indriða Níelssonar og Ríkharðs Kristjánssonar verkfræðinga, og Guðna Jóhannesson orkumálastjóra. Verkfræðingarnir sögðu að hönnun væri oft mjög bágborin sem ætti að kosta sem allra minnst, og að stundum sé byggt án teikninga. Þá hafi Guðni sagt að ekki sé nægilega mikil þekking hjá þeim sem hanni hús á Íslandi. Vandamálið sé þó ekki arkítektar eða verkfræðingar, heldur sérfræðiþekkinguna sem varðar það að byggingarnar verji sig fyrir vatni og veðrum.
„Sjónvarpsþátturinn Kveikur fjallaði um þetta ástand í vetur og í viðtölum við Indriða Níelsson og Ríkharð Kristjánsson verkfræðinga kom fram að vitlaust væri staðið að byggingaframkvæmdum. Hönnun væri oft mjög bágborin og mætti ekki kosta neitt. Dæmi væri um að byggt væri án teikninga. Græðgi markaðarins keyrði áfram hraða í framkvæmdum og að öllu samanlögðu þá virðist mega lesa út úr þessum viðtölum að í dag séu margar nýbyggingar mikið gallaðar og jafnvel ólöglegar.
Sjónvarpsþátturinn Kveikur ræddi einnig við Guðna Jóhannesson orkumálastjóra um þessi mál en hann var áður forstöðumaður byggingatæknideildar Konunglega tækniháskólans í Stokkhólmi. Guðni var á því að þeir sem hanna hús á Íslandi búi jafnvel ekki yfir nægilegri þekkingu. Arkitekt hugi að formfegurð, verkfræðingar fylgist með því að byggingar séu traustar og standist jarðskjálfta. „En síðan vantar þriðja þáttinn í þetta,“ sagði hann. „Það er að segja, sérfræðina sem á að tryggja að byggingarnar verji sig fyrir vatni og veðrum.
Þessi orð Guðna og þeirra Ríkharðs og Indriða virðast vera innihaldið og niðurstaða flestra sérfræðinga um stöðuna í gallamálum nýbygginga á Íslandi. Græðgin, hraðinn og þekkingarleysið virðast tröllríða byggingariðnaðinum sem leiðir til þess að mjög hátt hlutfall nýbygginga er gallað og neytandinn situr eftir með skaðann. Staðan í dag er svo alvarleg að nær ógerningur er að átta sig á stöðunni. Reikna má með að byggingamarkaðurinn velti yfir hundrað milljörðum á ári og að árlegt tjón vegna byggingagalla nemi tugum milljarða ef tjón allra er reiknað.“
Þá fjallar Sigurður um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, en hann virðist vera á þeirri skoðun að stofnun ráði ekki við verkefni sín er varða að stofnunin sjái um framkvæmd mannvirkjalaga.
„Í b-lið 1. greinar 1. kafla Mannvirkjalaga kemur fram að mannvirki skuli hönnuð og byggð þannig að þau henti íslenskum aðstæðum. Brot gegn lögunum geta varðað sviptingu réttinda hönnuða og meistara auk þess sem beita má sektum og fangelsi allt að tveimur árum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum sbr. 57. og 58. greinar laganna. Í raun er ekkert sem bannar að kæra hönnuði og byggingaraðila til lögreglu ef staðfestur grunur liggur fyrir um brot gegn mannvirkjalögunum.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sér um framkvæmd laganna og er hlutverk stofnunarinnar meðal annars að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með gæðum, öryggi og heilnæmi. Miðað við yfirlýsingar þeirra Indriða, Ríkharðs og Guðna virðist mjög langt í land að stofnunin ráði við þetta verkefni.“
Sigurður bendir á að húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefji nú uppbyggingu nýrrar mannvirkjaskrár. Hann tekur þó fram að ekkert hafi komið fram um mögulega atlögu að byggingagöllum eða vanhæfni byggingariðnaðarins.
„Nýlega bárust þær fréttir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið ásamt félagsmálaráðuneyti hafi ákveðið að hefja uppbyggingu nýrrar mannvirkjaskrár, gagnagrunns um íslensk mannvirki. HMS kemur til með að halda utan um nýju mannvirkjaskrána og þróa nýja gagnagrunninn. Markmiðið er að tryggja samfélaginu á hverjum tíma áreiðanlegar rauntímaupplýsingar um mannvirkjagerð og stöðuna á húsnæðismarkaði. Ekkert er minnst á að hefja eigi atlögu gegn byggingagöllum eða vanhæfni byggingariðnaðarins heldur taka saman stöðuna á húsnæðismarkaðnum enda verkefninu aðallega ætlað að fylgjast með fjölda íbúða í byggingu eftir byggingarstigi og upplýsingum um fasteigna- og brunabótamat.
Gríðarlegt magn byggingaupplýsinga er til í samfélaginu um mannvirki, byggingariðnaðinn, byggingalausnir og byggingargallana og nær allt sem snýr að öruggri mannvirkjagerð. Íslendingar hafa gríðarlega vel menntaða og hæfa menn og konur sem geta hæglega byggt íslensk mannvirki í samræmi við mannvirkjalögin þótt þar sé greinilega eitthvað mikið að – eins og sérfræðingarnir hafa fullyrt. Við blasir að HMS, sem er í forsvari fyrir mannvirkjalögin, þarf að fara í ítarlega greiningu á ástandinu og finna lausn sem leysir vanhæfis- og öryggisvandamál byggingariðnaðarins til frambúðar. HMS þarf að leggja til við ráðuneytin allsherjarbreytingu á aðhaldi í þessum mikilvæga iðnaði sem í dag virðist nær sokkinn í fen byggingargalla með tilheyrandi kostnaði og þjáningum borgaranna.“
Sigurður tekur fram að hann vilji sjá stofnunina fara í stærra verkefni sem myndi einnig varða vanhæfi og byggingagalla á mannvirkjamarkaðnum.
„Ég sé fyrir mér að HMS geti lagt út í miklu stærra og öflugra verkefni í upplýsingatækni með nýjum starfssviðum:
Annars vegar væri deild sem sæi um innankerfismál ríkisins um skráningar mannvirkja og sæi einnig um skráningu á öllum mannvirkjaupplýsingum og greiningu um hvaða mannvirki eða mannvirkjalausnir ætti að leyfa í landinu. Með samkeyrslu fyrirliggjandi upplýsinga og nýrra skráninga má ná gríðarlegum árangri gegn vanhæfi og byggingagöllum á mannvirkjamarkaðnum.
Hins vegar væri löggildingar- og vottunarstofa HMS fyrir mannvirkjagerð og alla sem koma að gerð mannvirkja, byggingarefni, réttindi o.fl.
Einnig tel ég að byggingastjórar ættu að vera sjálfstæðir vottunaraðilar og óháðir öðrum aðilum á mannvirkjamarkaði og verði lagalega tengdir beint við nýja löggildingar- og vottunardeild HMS.“