Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að hjá mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum renni greiðslufrestur út í haust en Ásberg sagðist telja líklegt að hann verði framlengdur til haustsins 2022. „Það kemur að skuldadögum. Á einhverjum tímapunkti þurfa fyrirtækin að byrja að greiða af lánum og þá þarf að eiga sér stað leiðrétting á markaðinum. Skuldastaðan í greininni er ósjálfbær,“ er haft eftir honum.
Hann sagði einnig að bankarnir hafi ekki hag af því að ganga að veðum sínum því þá fái þeir holskeflu af fyrirtækjum í fangið og af þeim sökum þurfi að vinna að heildarlausn með aðkomu banka, ríkisins, ferðaþjónustunnar og leigusala. „Höggið má ekki alfarið lenda á ferðaþjónustunni,“ sagði hann.
Hann sagði jafnframt að ef ekki verður bætt úr skuldastöðu ferðaþjónustunnar muni greinin eiga erfitt með að ná sér á strik.