Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir honum að bókanir erlendra ferðamanna séu hins vegar framar vonum. „Við erum í talsverðum vandræðum vegna manneklu en við erum búin að opna fimm hótel og erum að opna það sjötta í vikunni, á fimmtudaginn. Við erum með alla mögulega og ómögulega anga úti að reyna að ná okkur í starfsfólk,“ er haft eftir honum.
Center Hotels reka átta hótel í Reykjavík en þeim var öllum nema einu lokað í faraldrinum. Kristófer sagði að þernur, barþjóna, gestamóttökustarfsfólk og starfsfólk í eldhús vanti til starfa.
Hann sagði að rætt hafi verið við fyrrverandi starfsmenn um leið og fór að rofa til og nú sé allt reynt til að fá starfsfólk. „Einnig ráðum við mikið í gegnum Vinnumálastofnun og svo hefur hver sínar aðferðir til þess að reyna að finna fólk, hér og erlendis. Við þurfum samt líka að vera sanngjörn í því að þetta er svo mikið af fólki sem við erum að ráða á mjög skömmum tíma til að manna heila atvinnugrein upp á nýtt. Þetta er ekki bara það að fá fólk til að vilja vinna. Það þarf mikla þjálfun til að vinna á nútíma hóteli sem tekur sinn tíma,“ er haft eftir honum.