Strandveiðar hafa verið eitt af baráttumálum Pírata en fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins, Aðalheiður Ámundadóttir, sem í dag er fréttastjóri hjá Fréttablaðinu, er þeim andvíg. Í leiðara blaðsins í dag segir hún strandveiðar vera úreltan atvinnuveg sem skapi lítil verðmæti í samanburði við ferðamennsku:
„Eða hvor er meiri holdgervingur karlmennskunnar; skeggjaði trillukarlinn eða hipsterinn sem stýrir hvalaskoðunarbátnum? Hið sanna er að viðskiptavinur hipsterans er margfalt verðmætari fyrir íslenskt samfélag. Ekki aðeins í krónum talið, því á meðan viðskiptavinur hipstersins yfirgefur landið uppnuminn af því sem landið okkar hefur upp á að bjóða – sem hvergi er fegurra en undan ströndum landsins – fær viðskiptavinur trillukarlsins ormétinn þorsktitt og skilur ekkert í upphafningunni á íslenskum sjávarafurðum.“
Aðalheiður segir að strandveiðar hafi komist í tísku hjá íslenskum stjórnmálaflokkum í tengslum við kröfur um uppstokkun á kvótakerfinu. Sannleikurinn um strandveiðar hafi hins vegar verið flestum kunnur lengi:
„Fyrir áratug lýstu nokkrir hagfræðingar strandveiðum sem ólympískum veiðum sem leiddu til kapphlaups um afla sem hækki sóknarkostnað, lækki verðmæti afla og hvetji til brottkasts.“
Aðalheiður segir að það sé miklu meira vit í því að byggja upp innviði fyrir ferðaþjónustuna á landsbyggðinni en halda í úreltan atvinnuveg á borð við strandveiðar sem enginn trúi á í raun og veru. Það sé líka í takt við lífsstíl og viðhorf kynslóða framtíðarinnar:
„Önnur bylting styður einnig þessa ályktun. Sú kynslóð sem nýtir kosningarétt sinn í fyrsta skipti næsta haust hefur mun sterkari ábyrgðartilfinningu gagnvart umhverfinu en eldri kynslóðir. Hún er margfalt líklegri til að taka afstöðu með umhverfinu í öllum neysluháttum. Æ fleiri munu gerast vegan á næstu árum og neytendum fisks og kjöts mun halda áfram að fækka.
Þessi þróun mun augljóslega hafa áhrif á landbúnað og sjávarútveg og þar með atvinnuvegi á landsbyggðinni og byggðaþróun í landinu. Stjórnmálaflokkar verða að horfast í augu við þetta við útfærslu stefnumála sinna fyrir komandi kosningar.“