Morgunblaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Gunnari Svavarssyni, framkvæmdastjóra Nýs Landspítala, sem er opinbert hlutafélag, að umfang verkefnisins skýri þessa breytingu. Meðferðarkjarninn, sem er stærsta byggingin, verði 70.000 fermetrar í stað 53.000 fermetra. Einnig var ákveðið að gera þá kröfu að húsið geti staðið af sér mun öflugri jarðskjálfta en kveðið er á um í byggingarreglugerðum. Nú sé talið að húsið verði starfhæft nokkrum klukkustundum eftir slíkan skjálfta sem mun líklega eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum.
Um leið og húsið var stækkað urðu veggir þess þykkari en áður var miðað við og því fór meira stál í bygginguna. Samskonar breytingar voru einnig gerðar á 17.000 fermetra rannsóknahúsi sjúkrahússins.
Haft er eftir Gunnari að þessar breytingar eigi stærsta þátt í kostnaðarhækkununum auk verðhækkana á mörkuðum. Að auki hafi verið ákveðið að stækka gatnagerðarverkefnið í kringum spítalann.