Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er gífurlega ánægður með nýjan miðbæ á Selfossi ef marka má Facebook-færslu sem hann birti í gærkvöldi. Miðbærinn var opnaður í gær og fór fram grillveisla og hjólreiðakeppni á svæðinu.
„Til hamingju Íslendingar með bestu framkvæmd Íslandssögunnar, amk frá því að Guðjón Samúelsson lést,“ skrifaði Sigmundur í færslunni og segir að miðbærinn sé stórkostleg viðbót við menningu og sögu Íslands.
Haldin var atkvæðagreiðsla meðal íbúa Árborgar á sínum tíma þar sem kosið var um uppbyggingu nýja bæjarins. Um 60% þeirra sem greiddu atkvæði vildu byggja nýjan miðbæ en 40% ekki. Kjörsókn var um 55%.
Í miðbænum má finna fjölda veitingastaða og verslana sem bæjarbúar og gestir geta nýtt sér á komandi árum.