„Veistu það, George, ég held að við séum með okkar litla framlagi að gera nokkuð sem er mikilvægt. Að uppfylla grunnþörf. Það liggur djúpt í mannssálinni að vilja eiga sitt eigið þak, sína eigin veggi og sitt eigið eldstæði og á skítugi litlu skrifstofunni okkar erum við að hjálpa fólki að eignast þetta.“
Þannig er faðir George Baily látinn komast að orði við son sinn (sem James Stewart lék) í kvikmynd Franks Capra frá árinu 1946 It‘s a Wonderful Live sem gjarnan er sýnd í sjónvarpinu á aðfangadagskvöld, en þegar myndin var gerð hafði hljóðlát þjóðfélagsbylting átt sé stað í bandarísku samfélagi á aðeins hálfum öðrum áratug.
Almenningur gat ekki beðið
Á þriðja áratug síðustu aldar bjuggu aðeins tvær af hverjum fimm bandarískum fjölskyldum í eigin húsnæði. Lán til húsnæðiskaupa voru almennt skammtímalán þar sem greiddir voru vextir en höfuðstóllinn síðan greiddur í einu lagi. Í upphafi kreppunnar miklu var gengið að gríðarlegum fjölda veða vestanhafs og fólk stóð uppi húsnæðislaust. Á sama tíma var atvinnuleysi geigvænlegt og margra beið ekkert annað en algjör örbirgð.
Þetta var frjór jarðvegur byltingarhugmynda og víða brutust út blóðug átök lögreglu og atvinnulausra. Sem dæmi þá létu fimm atvinnulausir verkamenn lífið er lögregla hóf skothríð á mannfjöldann í Detroit í marsmánuði 1932. Alls munu um 60 þúsund manns hafa fylgt þeim til grafar þar sem Internationalinn var sunginn án afláts.
Kreppan mikla leiddi til harðvítugra átaka þjóðfélagshópa víðs vegar um heiminn sem sums staðar ólu af sér alræðisstjórnir og í Bandaríkjum Ameríku óttuðust margir sósíalíska byltingu. Eins og flestir þekkja af sögubókum fólst lausn Bandaríkjamanna í New Deal. Hagfræðingar og sagnfræðingar deila enn um áhrifamátt efnahagsstefnu Franklins D. Roosevelts Bandaríkjaforseta. Þær aðgerðir stjórnar hans sem urðu hvar varanlegast var nýja húsnæðistefnan en stjórnin setti sér það markmið að auka möguleika Bandaríkjamanna á að eignast eigið húsnæði. Húseigendalýðræði varð raunverulegt mótvægi við sósíalismann. Þetta var gert með opinberri húsnæðislánastofnun og tilkomu innstæðutrygginga. Lán til fasteignakaupa önnuðust sparisjóðir líkt og sá sem George Baily er látinn starfrækja í kvikmyndinni It‘s a Wonderful Live þar sem hann á í höggi við illræmdan leigusala, herra Potter, sem sagði að fólk yrði að bíða og safna peningum áður en það gæti látið sig dreyma um viðunandi heimili. Og Baily er látinn segja:
„Bíða! Bíða eftir hverju? Eftir að börnin þess vaxi úr grasi og fari að heiman? Eftir að það verði svo gamalt og hrumt að það … Veistu hvað verkamaður er lengi að safna fimm þúsund dollurum? Mundu bara, herra Potter, að þessi skríll sem þú ert að tala um … vinnur mest og borgar mest og lifir mest og deyr mest af öllum í þessu samfélagi. Er til of mikils mælst að hann geti unnið, borgað, lifað og dáið í tveimur sómasamlegum herbergjum með baði?“
Þetta var „ameríski draumurinn“ í hnotskurn. Húseigendum fjölgaði gríðarlega frá því á kreppuárunum og um 1960 var hlutfall fólks í eigin húsnæði komið upp í 60%.
Fólk verði virkari þátttakendur
Valdið leitar fyrr eða síðar þangað sem eignirnar eru og þess vegna er dreifing eignanna meðal borgaranna forsenda lýðræðis. Lýðræði snýst nefnilega ekki aðeins um að kjósa á fjögurra ára fresti — það snýst ekki síður um að raunveruleg eignamyndun borgaranna eigi sér stað. Þar skipta fasteignirnar höfuðmáli en í Bandaríkjunum varð líka til hlutabréfamarkaður sem gerði öllum almenningi kleift að vera þátttakendur í atvinnulífinu og varð, líkt og húseigendalýðræðið, andsvar við sósíalismanum sem boðaði opinbert eignarhald á atvinnutækjunum.
Skipulegur hlutabréfamarkaður á sér stutta sögu hér á landi en þegar á sjötta áratugnum hófu hugsjónamenn á borð við Eyjólf Konráð Jónsson, ritstjóra Morgunblaðsins, og Guðmund H. Garðarson, formann VR, að mæla fyrir breyttri löggjöf sem auðveldaði öllum almenningi að fjárfesta í hlutabréfum. Til grundvallar þeim tillögum sem þeir viðruðu bjuggu hugsjónir sem áður voru nefndar um mikilvægi eignadreifingar í þjóðfélaginu.
Hrun bankanna og kreppan 2008 fældi almenning frá hlutabréfamarkaðnum en nú er að rofa til og almenningur á nýjan leik tekinn að fjárfesta í hlutabréfum. Meira að segja með svo myndarlegum hætti að á dögunum urðu hluthafar í Íslandsbanka á þriðja tug þúsunda talsins í kjölfar hlutafjárútboðs. Þá er skemmst að minnast mikillar þátttöku almennings í hlutafjárútboði Icelandair í fyrra.
En almenningur gæti komið með myndarlegum hætti að fleiri verkefnum, til dæmis uppbyggingu brýnna samfélagslegra verkefna á borð við samgöngur og orkumannvirki en eins og Samtök iðnaðarins hafa margsinnis bent á er til staðar gríðarleg uppsöfnuð þörf á fjárfestingum í innviðum. Margt kemur til, svo sem fjölgun þjóðarinnar, þéttbýlismyndun á suðvesturhorninu og vöxtur í ferðaþjónustu. Nú er enn á ný rætt um Sundabraut en hún gæti orðið áhugavert verkefni fyrir myndarlegan fjárfestingasjóð í formi hlutafélags.
Í skýrslu um starfsemi Framtakssjóðs Íslands bentu þeir dr. Ásgeir Jónsson, núverandi seðlabankastjóri, og Alexander Freyr Einarsson hagfræðingur á að ríkisvaldið er með gríðarmikið fjármagn bundið í hliðarverkefnum sem eru ótengd kjarnastarfseminni sem felst í að sinna velferðarþjónustu. Þeir segja of stóran efnahagsreikning íþyngja ríkinu og í reynd sé því ómögulegt að standa eitt í þeim innviðafjárfestingum sem við blasa. Hér eru tækifæri til fjárfestinga alls almennings í formi fjárfestingahlutafélaga á markaði og ríkisvaldið getur þá á sama tíma komist hjá skuldum á efnahagsreikningi sínum sem síðan hafa áhrif á lánshæfi landsins.
Ef við lítum til hinna Norðurlandanna er almenningur mun virkari á hlutabréfamarkaði en hér svo mikið verk er óunnið. Á öllum hinum Norðurlöndunum eru til staðar skattalegir hvatar til hlutabréfakaupa en skattaafslátturinn var afnuminn hér á landi árið 2002. Fróðlegt væri að heyra hvaða stjórnmálaflokkar væru tilbúnir að koma á skattaafslætti á nýjan leik og þá um leið væri gagnlegt fyrir kjósendur að vita hvar flokkarnir standa gagnvart grundvallarspurningum um eignadreifingu í samfélaginu — því eignadrefing er forsenda valddreifingar.