„Loftslagsmál eru stærsta og afdrifaríkasta viðfangsefni heimsbyggðarinnar um þessar mundir og þörf er á róttækum aðgerðum ef markmið alþjóðasamfélagsins eiga að ná fram að ganga.“
Þetta kemur fram í bókun frístundafulltrúa meirihlutans í borginni úr bréfi skóla- og frístundaráðs, sem var lagt fram á borgarstjórnarfundi í síðustu viku. Til stendur að skerpa á vitundarvakningu um loftlagsmál fyrir nemendur og starfsfólk grunnskóla Reykjavíkur. Verkefnið á að snúast um fræðslu og fjölbreytta verkefnavinnu nemenda er varða loftlagsmál.
Ekki voru allir á eitt sáttir um efni bréfsins, en Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins tjáði óánægju sína. Hún segir fyrirhuguða vitundarvakningu vera pólitískan rétttrúnað og heilaþvott sem byggi á hræðsluáróðri. Þetta kemur fram í bókun sem hún lagði fram á fundinum.
Vigdís minnist meðal annars á mál sem hún kvartaði mikið yfir árið 2019, þegar nemendum vinnuskólans stóð til boða að fara í loftslagsverkföll og gera fyrir þau kröfuspjöld. Þá telur hún að fræðsla sem þessi muni auka loftslagskvíða barna.
Bókun Vigdísar var eftirfarandi:
„Mikilvægt er að stunda ekki pólitískan rétttrúnað eða heilaþvott í grunnskólum Reykjavíkur sem byggir á hræðsluáróðri. Minnt er á að börn í Vinnuskóla Reykjavíkur voru fyrir stuttu æfð í að útbúa mótmælaskilti og send í kröfugöngu og fóru stjórnendur Vinnuskólans þar langt út fyrir hlutverk sitt. Grunnskólar eru skólar. Í 13. gr. laga um grunnskóla segir: „Nemendur eiga rétt á því að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans.“ Kvíði og vanlíðan er algeng hjá grunnskólabörnum og ekki er á það bætandi að bæta við „loftslagskvíða“ í skyldunámi.“