fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Eyjan

„Þetta er bara endalaust þvaður sem er eiginlega bara kvalafullt að hlusta á“ 

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 4. júlí 2021 15:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Þór Ólafson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki úrskurð eftirlitsnefndar lögreglu um Ásmundarsalsmálið til skoðunar með það fyrir augum að komast að því hvort að niðurstaða eftirlitsnefndarinnar standist skoðun. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur furðað sig á þeirri beiðni og telur að Ásmundarsalsmálinu sé lokið og að Jón Þór sé aðeins að nýta sér málið til að koma pólitísku höggi á Sjálfstæðismenn í aðdraganda kosninga.

Þingmennirnir tókust á um málið í Sprengisandi í morgun.

Pólítísk afskipti Áslaugar

Jón Þór Ólafson sagði að í grunnin snerist málið í dag um meint pólitísk afskipti dómsmálaráðherra af lögreglu og hvaða þýðingu það geti haft á störf lögreglu.

Samtökin GRECO hafi fyrir skömmu birt skýrslu sína um Ísland þar sem alvarlegar athugasemdir voru gerðar við spillingavarnir landsins, en samkvæmt skýrslunni eru ekki nægilegir varnaglar í íslenskum lögum og stjórnsýslu til að fyrirbyggja óeðlileg afskipti af málefnum lögreglunnar. Þá einkum er varðar ráðningar í störf, tilflutning í starfi og brottrekstur.

„Síðan talaði ég við Áslaugu Örnu sem dómsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í nóvember núna bara rétt fyrir áramótin og við fórum yfir þessa skýrslu og hennar listi sem hún átti að vera að innleiða hér á Íslandi til að takmarka þessi pólitísku afskipti, þetta voru níu atriði sem voru svona sérstaklega tilnefnd og hún var byrjuð á þremur og ekki einu sinni byrjuð á sex af þessum atriðum. Þannig hún var mjög meðvituð um þessa stöðu og svo mánuði síðar hringir hún í lögreglustjóra beint,“ segir Jón Þór.

En eins og flestir muna þá hringdi Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á Höfuðborgarsvæðinu, í tvígang á aðfangadag eftir að greint var frá því í fréttatilkynningu lögreglu að ráðherra ríkisstjórnarinnar hefði verið viðstaddur sýningu í Ásmundarsal þar sem grunur léki á að sóttvarnarreglur hefðu verið brotar. Áslaug hefur hafnað því að hún hafi reynt að hafa afskipti af málinu en þó hefur komið fram að hún hafi spurt Höllu hvort ekki ætti að biðjast afsökunar á tilkynningunni.

Jón Þór bendir á að Halla hafi þá nýlega verið skipuð í starf sitt af einmitt Áslaugu og því verði maður að spyrja sig hvernig lögreglustjóri túlki slíkt símtal.

Rétt er að taka fram að eftirlitsnefnd lögreglu komast að því að lögreglumenn á svæðinu ættu að vera áminntir vegna ummæla þeirra á vettvangi sem heyrðust á upptökum búkmyndavéla. Þessi liður málsins var lítið til umræðu í Sprengisandi í morgun.

Kvalafullt að hlusta á 

„Það er bara verið að grauta öllu saman,“ sagði Brynjar „Þetta mál er afar einfalt. Þetta er tvenns konar mál, annars vegar þessi mistök fjármálaráðherra við þessar aðstæður að vera að þvælast á þessum stað, sem hann hefur beðist afsökunar á – það er bara frá. Síðan er það þannig að það hefur legið fyrir allan tímann að lögreglustjórinn hefur sagt að það hafi engin afskipti verið að hálfu ráðherra af rannsókn málsins.“

Brynjar bendir á að Áslaug sem dómsmálaráðherra sé yfirmaður lögreglunnar í landinu og beri að hafa eftirlit með undirstofnunum sínum og hafi rétt á að óska eftir upplýsingum. Ef einhver sé að hafa óeðlileg pólitísk afskipti af málinu þá sé það Jón Þór.

„Ég lít á þetta mál sem bara frá. Svo allt í einu kemur hérna einhver nefnd sem gerir athugasemdir við störf lögreglu í þessu og þá byrja Jón Þór og félagar að ætla að taka málið inn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að athuga það hvort niðurstaða eftirlitsnefndarinnar standist lög og reglu. Ég spyr bara hvert eru menn komnir? Ef eitthvað er misnotkun á pólitísku valdi þá eru það svona uppákomur. Að vera að drösla þessu inn í nefndina og svo allt í einu að fara tala núna almennt um lögregluna og tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er bara endalaust þvaður sem er eiginlega bara kvalafullt að hlusta á“

Þar vísar Brynjar til málflutnings Jóns Þórs fyrr í þættinum þar sem hann minntist þess er annar ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hafði afskipti af lögreglu í Lekamálinu svokallaða. Eins minntist Jón Þór á þá staðreynd að nefndarmenn eftirlitsnefndar með störfum lögreglu eru flokksbundnir Sjálfstæðismenn.

Geðþóttavald ráðherra

Jón Þór bendir á að samkvæmt athugasemdum GRECO girði íslensk löggjöf ekki nægilega fyrir pólitísk afskipti ráðherra – ekki sem stendur.

„Það er vandamál til staðar þegar ráðherra, hefur vald í stöðunni því löggjöfin er ekki orðin nógu góð, hafi geðþóttavald varðandi skipan, framgöngu og afsögn lögreglumanna því þá er hægt að beita því geðþóttavaldi þannig og lögreglan getur fundið það að framganga þeirra í starfi eða hvort þeir haldi starfi sínu sé ekki endilega háð því að þeir vinni faglega heldur að þeir vinni ekki þannig að pólitíkin tapi á því“

Bendir Jón Þór að að Halla Bergþóra hafi á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í vetur, samkvæmt fjölmiðlaumfjöllun, varað Áslaugu við að hafa ekki afskipti af rannsókninni.

„Okkar hlutverk er ekki að dæma fyrir fram, okkar hlutverk er að hafa eftirlit til að geta dæmt. Til að fá upplýsingarnar til að geta dæmt og nú hefur komið fram í fjölmiðlum að lögreglustjóri á að hafa sagt, ég get hvorki staðfest né hafnað því ég verð bara að gæta trúnaðar hvað það varðar, að hafa sagt við dómsmálaráðherra að passa sig að skipta sér ekki af rannsókn málsins.“

Eru þetta eðlileg viðbrögð?

Eins hafi Áslaug beðið um afsökunarbeiðni beint frá Höllu þegar eðlilegra hefði verið að hún hefði haft samband við Ríkislögreglustjóra.

„Svo hefur komið fram líka að hún hafi beðið um afsökunarbeiðni frá lögreglustjóra af hendi lögreglunnar fyrir þessa yfirlýsingu sem var óþægileg pólitískt náttúrulega fyrir Bjarna Benediktsson sem var á staðnum. Og þá spyr maður sjálfan sig – eru þetta eðlileg viðbrögð? Er þetta dómsmálaráðherra sem dómsmálaráðherra að sinna sínu eftirlitshlutverki gagnvart lögreglunni, sem hún á að gera, að hringja beint í þennan lögreglustjóra,  því hún er með ríkislögreglustjórann og Brynjar Níelsson hefur sagt sjálfur að eðlilegast hefði verið að tala við ríkislögreglustjóra sem fer með umboð ráðherra til að hafa sitt eftirlit.“

Segir Jón Þór ekkert eðlilegt við símtölin á Aðfangadag.

„Það er ekkert eðlilegt við það að hringja í þessu einstaka máli á aðfangadag, þegar kvöldið áður hafði hennar samráðherra verið þarna, það má alveg túlka það sem óeðlileg afskipti þó það hafi ekki verið afskipti af lögreglurannsókn þá eru þetta pólitísk afskipti því hvað á lögreglustjóri að halda? Hvað eiga hinir lögrelgumenn að halda þegar þeir fara á vettvang þegar þar eru vel tengdir aðilar?“

Brynjar ítrekar þá að hann telji Jón Þór vera að „grauta öllu saman“

„hér er bara verið að grauta öllu saman. Jón Þór er að óska eftir fundi í júlí til að nefndin fari að skoða það hvort að eftirlitsnefnd með störfum lögrelgu standist lög og reglur. Ætlar nefndin að fara að kveða upp með það hvort að niðurstaða eftirlitsnefndarinnar sé röng eða rétt“

Að mati Brynjars er málinu lokið og þó svo Áslaug hefði líklega betur mátt hringja í ríkislögreglustjóra þá sé staðreyndin sú að í krafti embættis síns var henni fyllilega heimilt að hringja í Höllu.

Fjármálaráðherra hafi verið á sölusýningu, hann hafi ekki verið uppvís af refsilagabroti.

„Sem er út af fyrir sig ekkert mál nema það er bara vegna sérstakra aðstæðna mjög óheppilegt. Hann braut ekkert af sér, gerði ekkert af sér. Fullt af fólki á sölusýningum út um allan bæ. Ekkert að þessu. Þetta var ekki einu sinni sóttvarnarbrot. Svo fer lögreglan að fimbulfamba þarna einhverri dagbókarfærslu sem gerir þetta mál allt saman óþægilegra.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Dýr myndi Jón Gunnarsson allur – kvalræði Sjálfstæðisflokksins ætlar engan enda að taka

Orðið á götunni: Dýr myndi Jón Gunnarsson allur – kvalræði Sjálfstæðisflokksins ætlar engan enda að taka
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“

Aumkunarvert að reyna að draga frambjóðendur með sér í skítinn – „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu

Þessi sóttu um embætti skrifstofustjóra fjármála hjá heilbrigðisráðuneytinu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sjálfstæðisflokkurinn nær nýjum lægðum í nýrri könnun

Sjálfstæðisflokkurinn nær nýjum lægðum í nýrri könnun
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni

Ævisaga Geirs Haarde: Davíð Oddsson var fíllinn í stofunni og stóð með Steingrími J. Sigfússyni