Íbúar við Fléttuvelli 37-51 eru afar óánægðir með þær fyrirætlanir bæjarins að setja upp ærslabelg við nærliggjandi leikskóla við Hamravelli. Í bréfi sem íbúar sendu bæjaryfirvöldum er þess krafist að verkefnið sé stöðvað þegar í stað og að tjón verði bætt. Þá mótmæla íbúar harðlega því samskipta- og skeitingarleysi sem þeim hafi verið sýnd og að slík vinnubrögð sé eitthvað sem ekki eigi að líðast að hálfu stjórnenda bæjarins.
„Ekki hefur farið fram grenndarkynning á þessu verkefnum og erum við þeirra skoðunar að hluti eða heild áætlaðs svæðis sé óskipulagt og friðað og þyrfti þá væntanlega umsögn Náttúrufræðistofnunar einnig til, en við bendum á að mosi er friðaður samkvæmt íslenskum lögum, við förum fram á að ný staðsetning verið valin og vinna hafin á tafar við að laga það tjón sem þegar hefur verið valdið í óþökk íbúa nærliggjandi húsa,“ segir í bréfinu.
Bréf íbúanna var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar um miðjan júní síðastliðinn. Því var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa bæjarins sem benti á að framkvæmdin samræmdist skipulagsáætlunum bæjarins og því var grenndarkynning óþarfi. Engu að síður var ákveðið að hnika staðsetningu ærslabelgsins aðeins til innan lóðarirnar en framkvæmdirnar halda áfram.