Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, segir að við lifum á sögulegum tímum. Aldrei hafi fólki á aldursbilinu 25-75 ára fjölgað eins hratt og síðustu ár. Þetta þýði að aldrei hafi fleiri verið í fasteignaleit, eða í leit að eigin kastala eins og Ásgeir orðar það í færslu á Facebook. Hann segir hagfræðinga eiga það til að týna sér í vöxtum og lánaformum þegar það sé fólkið og langanir þess sem mestu skipta. Sjaldan hafi verið jafn mikil húsnæðisþörf og nú.
Ásgeir segir þetta eiga sér þrennar skýringar.
„Í fyrsta lagi er fjölmenn kynslóð nú á hraðri leið yfir tvítugsaldurinn. Í annað stað – hafa fólksflutningar íslenskra ríkisborgara verið að snúast við. Á síðasta ári fluttu fleiri heim en út. Loks – hefur fjöldi erlendra ríkisborgara flust hingað á síðustu árum í atvinnuleit. Þessi hópur hefur í auknum mæli verið að festa ráð sitt – og kaupa eigið húsnæði eftir að hafa verið á leigumarkaði.“
Ásgeir segir að allt þetta unga fólk í leit af fasteign hafi valdið þrýsting á leigumarkað og kipp á fasteignakaupum nýlega.
„Allt þetta unga fólk þarf sinn eigin stað í tilverunni – sinn eigin kastala. Og hefur valdið miklum þrýstingi á leigumarkaði á síðari árum – og síðan gríðarlegum kipp á fasteignakaupum hin síðustu misseri. Óskin eftir eigin kastala – er jafnframt ákvörðun að verja starfsævi sinni hér – til heilla atvinnulífi. Það skiptir einnig máli – í lengra samhengi.“
Ásgeir segir að frá því að Seðlabankinn lækkaði vexti niður í 1% síðasta vor og bankarnir fóru að bjóða upp á fasteignalán með breytilegum vöxtum hafi 30% allra kaupsamninga um íbúðarhúsnæði verið gerðir af fyrstu kaupendum.
„Það er Íslandsmet – a.m.k. miðað við skráða sögu. Á sama tíma lækkaði leiguverð – sem er til marks um mikla fólksflutninga á milli markaða – frá leigu til eigin húsnæðis. Það gekk nokkuð vel fyrir sig í 10 mánuði – en verðhækkanir að undanförnu benda til þess að nú hafi framboð ekki í við eftirspurn.“
Ásgeir segir að nú hvíli sú ábyrgð á Seðlabankanum að koma í veg fyrir spákaupmennsku á fasteignamarkaði og tempra eftirspurnina eð stýritækjunum sem bankinn hefur yfir að ráða.