Í nóvember í fyrra var greint frá því því að Reykjavíkurborg hefði fest kaup á húsnæði við Kleppsveg 150-152 sem áður hýsti meðal annars kynlíftækjaverslunina Adam & Evu. Kaupverðið var 642 milljónir króna en markmiðið með kaupunum var að breyta húsnæðinu, sem var í mjög misjöfnu ástandi, í leikskóla.
Borgarstjóri fagnar kaupunum á Twitter:
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að kaupa hús. Ekki svo óalgengt en ég man ekki til þess að við höfum áður keypt hjálpartækjaverslun. Húsnæði Adams og Evu er nú okkar! 1/2 pic.twitter.com/csfVWdrdSA
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) November 12, 2020
Kostnaðarálætun við breytingarnar var 367 milljónir til viðbótar en þó var tekið fram að möguleiki væri á því að hann yrði 600 milljónir króna þegar allt væri yfirstaðið. Í heildina hefði því uppbygging nýja leikskólans átt að kosta 967 – 1.242 milljónir króna. Þótti það gríðarlega hátt verð, sérstaklega ef efri mörkin myndu raungerast.
Í ljós hefur þó komið að kostnaðaráætlunin reyndist ekki á rökum reist því að húsnæðið er í mun verra ástandi en áður var talið. Á borgarráðsfundi í vikunni var lögð fram ný kostnaðaráætlun þar sem í ljós kom að kostnaðurinn yrði 1.425 milljónir króna og eins og áður óvíst hvort þær áætlanir standist.
Harðar umræður spunnust um málið á borgaráðsfundinum og bentu talsmenn minnihlutans á að um enn eitt fjármálaklúður meirihlutans væri að ræða. Þá var komið á framfæri áhyggjum að verið væri að vinna bug á myglu og rakaskemmdum.
Í gagnbókun meirihlutans var því vísað á bug að um framúrkeyrslu væri að ræða. Fyrri áætlun hafi verið frumkostnaðaráætlun og því ekki óeðlilegt að verðið hækki á nýrra og ítarlegra kostnaðarmati.