Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. „Þetta sýndi sig til dæmis þegar við fórum fram úr öllum spám um vöxt ferðaþjónustunnar mörg ár í röð og er mögulega að sýna sig nú þegar á þessu ári, þegar við virðumst ætla að fara fram úr eldri spám,“ er haft eftir Bjarna sem sagði einnig að það stefni í að skuldir ríkisins aukist minna í yfirstandandi kórónuveirukreppu en óttast var.
Heildarskuldir ríkissjóðs hafa aukist um tæplega 500 milljarða frá í febrúar á síðasta ári. Þegar Bjarni var spurður út í áhrif þessarar skuldasöfnunar á þjóðarbúskapinn á næstu árum sagði hann það vera forgangsmál að auka landsframleiðslu og draga úr atvinnuleysi. „Við horfum ekki síst á atvinnustigið og hagvaxtartölurnar. Það skiptir miklu máli að landsframleiðslan nái hærra stigi strax á næsta ári. Við tökum það þá með okkur inn í framtíðina og höfum, ef vöxturinn verður meiri, þá ekki sömu þörf fyrir aðhald á næstu árum,“ sagði hann og benti á að vaxtakjör væru mjög hagstæð um þessar mundir.