Morgunblaðið hefur þetta eftir honum í dag. Áætlunarflug Play til Berlínar hefst í dag og fjórir áfangastaðir bætast við á næstu þremur vikum.
Icelandair verður með 30 áfangastaði í júlí, 20 í Evrópu og 10 í Norður-Ameríku. Í ágúst bætast þrír áfangastaðir við í Evrópu og einn í Norður-Ameríku. Þannig verður félagið fljótlega með 34 áfangastaði. Þetta hefur Morgunblaðið eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group.
Hann sagði að verið sé að bregðast við aukinni eftirspurn með þessu og líti haustið vel út. „Bókunarflæðið hefur verið nokkuð sterkt, sérstaklega Bandaríkjamegin, síðustu vikur. Við erum að sjá ágætis teikn inn á haustið og veturinn. Við gerum ráð fyrir að vera með metnaðarfulla flugáætlun í haust og vetur. Staðan er nokkuð góð og bókunarflæðið endurspeglar það,“ er haft eftir honum.
Hann sagði að góð eftirspurn frá Bandaríkjunum skipti þarna miklu máli en einnig sé eftirspurnin að aukast frá meginlandi Evrópu og Skandinavíu en Bretar sú nú hikandi. „Bretar opnuðu á ferðalög til Portúgal og því fylgdi mikið framboð flugsæta. Síðan var lokað fyrir ferðir þangað aftur og tók það svolítið sjálfstraustið af ferðaþjónustunni í Bretlandi; ferðaviljinn og bókunarviljinn minnkaði aftur,“ sagði Bogi.