Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri Íslands, mætti í viðtal í hlaðvarpsþáttinn til Snorra Björns en þar ræddu þeir undir lokin um stýtivexti og fasteignamarkaðinn.
„Kom það þér á óvart, það sem gerðist við fasteignamarkaðinn eftir að stýrivextirnir fóru svona lágt?“ spyr Snorri viðmælanda sinn og Ásgeir svarar játandi. „Vegna þess að þegar við lækkum stýrivexti þá leit fasteignamarkaðurinn ekki vel út. Það sem við sáum þá var að íbúðir seldust ekki, byggingaverktakar voru lentir í vandræðum með að selja, voru lentir í lausafjárvandræðum,“ segir Ásgeir.
Ásgeir segir þá að bankarnir hafi haft áhyggjur þegar Covid-19 faraldurinn var í gangi. „Bankarnir sögðu okkur að þeir hefðu áhyggjur af þessu og óttuðust það að byggingageirinn væri að fara á sama stað og ferðaþjónustan, þyrftu að fá frystingar og bankarnir þyrftu þá að taka fyrirtæki í gjörgæslu, það voru horfurnar í Covid. Svo snérist þetta við og það kom okkur á óvart, já. Bjóst ekki við að bankarnir færu svona ákaft út í þetta, eins og þeir gerðu,“ segir Ásgeir.
„Þú vissir þá strax að um leið og þú myndir hækka stýrivextina þá myndi fólk finna fyrir því út af öllum lánunum sem það er að taka fyrir fasteignunum,“ segir Snorri þá.
Ásgeir lýsir þá áhyggjum sínum og kemur með ráð til landsmanna. Það er ansi óvenjulegt að svo áhrifamikill einstaklingur eins og seðlabankastjóri komi með ráð af þessum toga fyrir landsmenn. „Það sem ég hef áhyggjur af er það að sko, þú getur fest vexti og þú getur tekið breytilega vexti, þá velta vextirnir á Seðlabankanum. Þú getur fest vexti og það hefur komið mér á óvart af hverju það eru ekki fleiri sem hafa fest vexti,“ segir hann og ákveður svo að vera enn skýrari í máli sínu.
„Mögulega ætti ég að vera skýrari með það að ég mæli með að fólk festi vexti. Það er samt svo erfitt fyrir mig en ef ég ætti að gefa fólki ráð þá væri það að festa vexti. Ég veit ekki nákvæmlega hvað er að fara að gerast í kerfinu, það er svo margt sem getur gerst. En ég náttúrulega veit að við hljótum að fara að hækka vextina því vextirnir voru voðalega lágir út af þessum faraldri.“