Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, segist hræddur um að eigin hagsmunir Benedikts Jóhannessonar, eins af stofnendum Viðreisnar og fyrrverandi formanns flokksins, blindi honum sýn þannig að hann sjái ekki lengur þá almannahagsmuni „sem við ætluðum að setja ofar sérhagsmunum.“
Í langri færslu sem Jón Steindór birti á Facebook í morgun segist hann þó ekki hafa trú á öðru en að Benedikt muni fyrr en seinna lýsa yfir fullum stuðningi við flokkinn sem hann átti svo stóran þátt í að skapa „… hvetji allt sitt lið til þess að koma á fullu inn í baráttuna fyrir sameiginlegum hugsjónum og tryggi Viðreisn sem mest fylgi í komandi kosningum.“
Greint var frá því í gær að Benedikt hefði sagt sig úr framkvæmdastjórn flokksins, sama dag og stofnaður var Facebookhópurinn C++ frelsi og frjálslynd hugsun, en C er listabókstafur Viðreisnar og gæti því einhver hugsað með sér að þarna væri á ferðinni einhvers konar uppfærð útgáfa af Viðreisn.
Bæði Benedikt og Ingólfur Hjörleifsson, fyrrverandi frambjóðandi flokksins, hafa harðlega gagnrýnt vinnubrögð við val á lista fyrir næstu þingkosningar. Í samtali við Vísi í gær staðfestu þeir báður að þeir væru í þessum C++ hópi. Spurður hvort komi til greina að stofna nýjan flokk sagði Benedikt ekki tímabært að svara því.
„Enn á ný eru kosningar í nánd. Í samræmi við meginreglu laga flokksins var ákveðið að efna til uppstillingar, eins og í þau tvö skipti sem flokkurinn hefur boðið fram til Alþingis.
Það hefur hryggt mig meira en orð fá lýst að Benedikt Jóhannesson, sem ég hef talið góðan félaga og vin, hafi valið þá leið að gera forystu og stofnanir flokksins tortryggilegar í kjölfar þess að hann fékk ekki vilja sínum framgengt við uppstillingar á lista,“ segir Jón Steindór í færslunni, og heldur áfram:
Fjarri öllum sannleika
„Í viðtali við mbl.is segir Benedikt: „Viðbótarsnúningur kom á þetta mál þegar að Jón Steindór, sem hefur verið í flokknum frá upphafi, var færður úr líklegu sæti í suðvestur og yfir í ólíklegt sæti í Reykjavík norður. Reynt að slá fleiri en eina flugu í sama höggi.“ Hér virðist Benedikt, trúlega í misskilinni greiðasemi við mig, gera tortryggilegt að ég sé kominn úr öðru sæti í Suðvesturkjördæmi í annað sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður. Væntanlega vill hann benda á að hér sé illa farið með góðan dreng eins og hann af klíkuskap og klækjastjórnmálum forystu Viðreisnar – það er víðsfjærri öllum sannleika og bjarnargreiði við mig. Sama gildir um samsæriskenningar um að körlum hafi verið raðað í efstu sæti landabyggðarkjördæmanna til þess að útiloka að Benedikt fengi ósk sína uppfyllta um forystusæti í einhverju kjördæmanna þrigga á höfuðborgarsvæðinu.
Jón Steindór bendir á að þingflokkurinn sé nú skipaður fjórum þingmönnum. „Það eru oddvitar í umræddum kjördæmum, auk mín sem er annar af tveimur þingmönnum Suðvesturkjördæmis. Svo vill til að oddvitarnir þrír eru allar hörkuduglegar, skeleggar og áhrifamiklar á þingi. Það er nákvæmlega engin ástæða til þess að víkja þeim úr því hlutverki. Eitt af því sem hreif mig og ég hef staðið vörð um er að gæta fullkomins kynjajafnréttis við val á lista. Þess vegna höfum við fléttulista og þess vegna eru þrír oddvitar í kjördæmunum sex konur og þrír karlar. Frá þessu prinsippi á ekki að víkja. Benedikt hefur ekki setið á þingi síðustu fjögur ár. Þegar hann lét af formennsku flokksins var fylgi hans 3,4% rétt fyrir kosningar. Þingflokkurinn, ásamt öflugri grasrót, reif fylgi flokksins upp í 6,7% í kosningunum. Fylgi flokksins hefur síðan mælst á milli 9 og 12% í könnunum á kjörtímabilinu.“
Erfiðara í Suðvestur
Þá segir hann uppstillingarnefndir flokksins hafa unnið vanþakklátt starf af stakri prýði. „Ég hafði gefið það til kynna að ég vildi gjarnan halda áfram í öðru sæti í Suðvesturkjördæmi. Uppstillingarnefndin í því kjördæmi boðaði mig tvívegis í viðtal til þess að rekja úr mér garnirnar um af hverju ég teldi mig eiga erindi. Það sama veit ég að var gert við aðra frambjóðendur. Í uppstillingarnefndinni sat fólk sem ég treysti fullkomlega til þess að bera hag flokksins fyrir brjósti og hefði það eitt að markmiði að stilla upp sigurstranglegu liði. Mér var einnig sagt að uppstillingarnefndirnar á höfuðborgarsvæðinu myndu bera saman bækur sínar og jafnframt að það væru fleiri en ég sem kæmu til skoðunar í annað sætið í kjördæminu.
Ég var loks boðaður á þriðja fundinn af formönnum uppstillingarnefndanna í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi. Þar var farið yfir stöðuna og viðrað við mig hvort ég gæti hugsað mér að færa mig í Reykjavík norður. Þar væri þörf á öflugum kandídat til að freista þess að ná þar inn tveimur þingmönnum. Í þessu spjalli sagði ég sem fyrr að ef það væri framgangi Viðreisnar fyrir bestu þá myndi ég gera það. Ég er þess fullmeðvitaður að það verður erfiðara verkefni en að halda mig í Suðvesturkjördæmi, verkefni sem ég mun takast á við af fullum krafti. Þá er ég ánægður með að fá að vera númer tvö á eftir Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur öflugum þingmanni og hugsjónakonu.“