Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. „Þegar það var opnað 6. apríl fyrir bólusetta ferðamenn utan Schengen byrjuðu Ameríkanar að tínast til landsins. Það eru aðallega þeir sem hafa verið á ferðinni í einhverjum mæli síðustu vikurnar. Síðan er núna farið að bera töluvert meira á Evrópubúum,“ er haft eftir Bjarnheiði Hallsdóttur, formanni Samtaka ferðaþjónustunnar.
Hún sagði það aðallega einkenna þessa ferðamenn að þeir séu nánast allir bólusettir. „Það sem mun skrúfa almennilega frá krananum er þegar við getum breytt reglum á landamærunum þannig að sóttkvíin verði afnumin. Það verði, eins og var búið að tala um að yrði jafnvel 1. júlí, bara einföld skimun fyrir alla. Því var frestað allavega til 15. júlí. Það er í rauninni það sem ferðaþjónustan er að bíða eftir, því að þá getum við sagt að það sé búið að aflétta öllum takmörkunum og þá getur ferðaþjónustan farið í fullan gang. Þetta er náttúrlega takmarkandi þáttur því það eru ekki allar þjóðir komnar eins langt og við í bólusetningunum,“ sagði hún.
Hún sagði að sífellt bætist við bókanir en fjöldi þeirra sé þó ekki mikill miðað við árin fyrir faraldurinn. Hún sagði að það væri þó mikið bókað í ágúst og september og fram eftir hausti. Ferðaþjónustan sé til í slaginn og staðan sé allt önnur nú en fyrir ári.