„Kannski gerði faraldurinn okkur að meiri „þjóð“ en við höfum lengi verið. Fólk sem allt í einu varð einangrað frá umheiminum, fann nú áþreifanlega fyrir því að allt sem hver og einn gerði – skipti okkur öll máli. Allt í einu vorum við – sem búum í þessu samfélagi – tengd áþreifanlegum böndum í einum vefnaði, ofin saman í samfélaginu okkar. Og um leið reyndist þessi vefnaður slitsterkur – því við sáum hvernig sérhver þráður skiptir máli fyrir okkar daglega líf,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í hátíðarræðu sinni á 17. júní í dag á Austurvelli í dag.
Forsætisráðherra talaði um að síðustu 15 mánuðir hefðu reynst erfiðir en um leið lærdómsríkir vegna þess að þeir hefðu minnt okkur á að samfélag er ekki aðeins orð heldur á hvaða hátt við nálgumst það að vera til ásamt öðrum. Og framundan væru krefjandi tímar sem krefðust svara um hvernig samfélag við viljum móta í framtíðinni og hvað við viljum gera til að svo megi verða:
„Nú er framundan tími viðspyrnu þar sem við munum í senn takast á við stórar áskoranir og byggja upp Ísland. Við þurfum að halda áfram að takast á við loftslagsvána rétt eins og við tókumst á við faraldurinn; sameiginlega, á grundvelli rannsókna og gagna og með sem bestum upplýsingum til allra þannig að við getum öll lagt okkar af mörkum til að ná árangri í þeirri baráttu. Íslenskt atvinnulíf sýndi frumkvæði og hugvit í faraldrinum og það þarf að beita sér með sama hætti fyrir grænum lausnum sem hjálpa okkur í stærsta verkefninu; að skila jörðinni heilli til komandi kynslóða.“