fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Benjamín segir Stefán Einar stunda móðgunarferðamennsku – „Mjög illa dulið skilningsleysi“

Jón Þór Stefánsson
Föstudaginn 11. júní 2021 13:34

Samsett mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikarinn Benjamín Kári Daníelsson sakar Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu, um móðgunarferðamennsku (e. tourist offensism) í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Málið sem Benjamín fjallar um er ritdeila Stefáns Einars við þá Einar Stein Valgarðsson og Hjálmtý V. Heiðdal, sem eru félagar í félaginu Ísland-Palestína. Umræðan varðar gyðingahatur, Ísraelsríki og Palestínu, en sjálfur er Benjamín af gyðingaættum. Stefán sakaði þá Einar og Hjálmtý um gyðingahatur á dögunum, en Benjamín telur að þar hafi hann stundað umrædda móðgunarferðamennsku, sem hann lýsir á þennan veg:

„Í því felst hugsunarháttur þar sem aðili ákveður að móðgast af ákveðnu fyrirbæri fyrir hönd einhvers annars, sem er í flestum tilfellum alveg sama um það og hefði örugglega aldrei móðgast yfir því til að byrja með.“

Málið má rekja til umfjöllunar um rauðvínið Psagot sem birtist í viðskiptablaði Morgunblaðsins í lok apríl. Framleiðendur vínsins eru ísraelskir, en það er framleitt á Vesturbakkanum, landsvæði sem mikil átök hafa verið um af hálfu Ísraels og Palestínu. Í umfjölluninni eru vínunnendur hvattir til þess að kaupa vínið, en þegar hún birtist hafði félagið Ísland-Palestína gagnrýnt að það væri selt í ÁTVR.

„Sú afstaða virðist byggjast á andúð“

Einar og Hjálmtýr birtu í kjölfarið grein í Morgunblaðinu þar sem umrædd vínumfjöllun var gagnrýnd vegna mannréttindabrota sem eiga sér stað á Vesturbakkanum, og þá var Stefán gagnrýndur fyrir að vera siðfræðingur sem styddi mannréttindabrot Ísraels. Þeirri grein svaraði svo Stefán, en þar fór hann yfir sögu Ísraelsríkis og deilnanna við Palestínu, jafnframt sakaði hann þá Einar og Hjálmtý um gyðingahatur.

„Þeir eru í grundvallaratriðum á móti tilveru Ísraelsríkis og sú afstaða virðist byggjast á andúð og hatri á gyðingum. Að saka menn um slíkt er vissulega alvarlegur hlutur en skrif þeirra bera hins vegar vott um hina miklu heift. Birtist hún ekki aðeins í afstöðunni til gyðinganna sjálfra heldur einnig hvernig þeir missa stjórn á sér vegna saklauss greinarkorns um rauðvín.“

„Mjög illa dulið skilningsleysi á flestöllu sem tengist gyðingahatri“

Benjamín heldur því fram að grein Stefáns sé mjög skýrt dæmi um móðgunarferðamennsku og í raun birtist þar skilningsleysi Stefáns á gyðingahatri.

„Ég hef varla séð jafn skýrt dæmi um slíka „móðgunarferðamennsku“ og í grein sem birtist nýlega eftir blaðamanninn Stefán Einar Stefánsson um gyðingahatur. Greinin ber vitni um mjög illa dulið skilningsleysi hans á flestöllu sem tengist gyðingahatri.“

Þá fer Benjamín lítillega yfir fjölskyldutengsl sín við gyðinga og bendir á að hann hafi upplifað gyðingaandúð, bæði hérlendis sem erlendis. Þá segir hann þá Hjálmtý og Einar ekki vera gyðingahatara, heldur séu þeir aktivistar sem hafi verið í fremstu víglínu gegn gyðingaandúð sem tengst hefur umræðunni um Ísrael og Palestínu.

„Fjölskyldan mín í föðurætt er gyðingar og ég hef upplifað gyðingaandúð á Íslandi og í öðrum ríkjum sem ég hef heimsótt. Gyðingahatur er alvarlegt vandamál í heiminum í dag og er það áhyggjuefni hvað það fer stigvaxandi víðs vegar í heiminum. Hjálmtýr Heiðdal og Einar Steinn Valgarðsson eru engir gyðingahatarar. Þeir eru aktivistar sem hafa stöðugt í tímans rás verið í fremstu víglínu á móti þeirri gyðingaandúð sem hefur sprottið upp í tengslum við umræðuna um Ísrael og Palestínu, í fjölmiðlum sem og í samfélagsmiðlum.“

Hættulegt að saka Einar og Hjálmtý um gyðingahatur

Benjamín segir að ekki sé hægt að neita því að gyðingahatur finnist á meðal þeirra sem styðja sjálfstæði Palestínu. Þó telur hann það hættulegt og algjöra þvælu að saka Einar og Hjálmtý um slíkt, og segir að Stefán færi ekki nein almennileg rök fyrir máli sínu.

Í lok pistils síns segir Benjamín svo að hann ætli ekki að leyfa neinum að móðgast fyrir sína hönd og að hann sé orðinn þreyttur á móðgunarferðamönnum. Einnig tekur hann upp málstað Palestínumanna og segir: „Ekki í mínu nafni.“

„Eru til gyðingahatarar meðal þeirra sem styðja Palestínumenn og palestínsku þjóðina? Vissulega – því er ekki hægt að afneita. Það eru kjánar og vitleysingar í öllum fylkingum. Ég tel hins vegar algjöra þvælu, og í rauninni mjög hættulegt fyrir umræðuna, að ásaka Einar Stein og Hjálmtý um gyðingahatur án þess að færa nokkur skiljanleg rök fyrir því. Það er hættulegt því að eftir 1945 vilja langfæstir fá á sig þá mannorðsskerðingu að vera kallaðir gyðingahatarar. Aðgát skal höfð með tilliti til þessarar ásökunar. Hún er öflug – en sérstaklega voldug þegar hún er misnotuð.“

„Ég ætla ekki að standa í því að leyfa þriðja aðila að móðgast fyrir mína hönd. Ég er í rauninni dauðþreyttur á þessum móðgunarferðamönnum. Ég segi eins og margir gyðingar sem hafa tekið upp málstað Palestínumanna: „Ekki í mínu nafni.““

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar