Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmaður, virðist ansi ósáttur með Loga Einarsson, þingmann og formann Samfylkingarinnar. Það kemur fram í pistli sem Einar skrifaði í Morgunblaðið í dag, þar sem hann heldur því fram að Samfylkingin hafi snúið sér að „woke“-skoðunum, og að nú séu sósíaldemókratar bannfærðir innan flokksins.
Í pistlinum viðurkennir Einar að sjálfur sé hann sjálfstæðismaður, en þess má geta að dóttir hans Diljá Mist Einarsdóttir verður ofarlega á lista flokksins í Reykjavík.
Einar gerir lítið úr Samfylkingunni og kallar hana smáflokk. Hann er ansi ósáttur með að flokkurinn hafi útilokað stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn og gefur til kynna að það brjóti á bága við mannréttindi.
„Við sjálfstæðismenn erum fjórðungur þjóðarinnar. Formaður smáflokks sem telur um 10% Íslendinga telur sér sæmandi að leggja til að við sem erum þannig miklu fleiri en meðlimir Samfylkingar séum útilokuð frá ákvörðunartöku án tillits til þess sem náðst gæti samstaða um við okkur. Þetta er nú skilningur Loga Einarssonar á lýðræði, málefnalegri samræðu og réttindum annarra. Er það ekki undarlegt að maður sem jafnan segist meta mannréttindi öðru ofar láti þvílíkt og annað eins frá sér fara? – Nú eða kannski bara alls ekki. Uppstillingar á listum Samfylkingar fyrir kosningarnar í haust segja nefnilega sömu sögu ef að er gáð. Nema hvað að innan Samfylkingar er bannorðið ekki sjálfstæðismaður, heldur sósíaldemókrati. Sá sem er sósíaldemókrati er nefnilega sjálfkrafa bannfærður innan Samfylkingarinnar. Við hafa tekið menn sem aðhyllast það sem nefnt er á ensku „woke“-skoðanir sem er meir í ætt við trúarbrögð en stjórnmál. En útskúfun er einmitt eitt af mörgu vondu sem einkennir þessi nýju guðlausu trúarbrögð.“
Þá kallar Einar eftir viðbrögðum frá Ingibjörgu Sólrúnu, fyrrverandi ráðherra, og öðrum vinum sínum og kunningjum úr Samfylkingunni, sem hann kallar öfgaflokk sem svipi til annara vinstri flokka í Evrópu.
„Æskuvinkona mín og bekkjarsystir heitir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Við hana voru samræðustjórnmálin kennd. Marga fleiri vini og kunningja á ég innan þessa flokks. Hvað segja þeir um þessa útilokunarstefnu? Verða þeir (ég nota íslenska málfræði, en ekki nýja kynlausa málið) ekki að tjá sig? Hinn rauði litur kommúnismans var, eðli málsins samkvæmt, einkennandi á þingi flokksins liðna helgi. Það var við hæfi. Samfylkingin er nefnilega ekki lengur sósíaldemókratískur flokkur. Þessi smáflokkur er í ætt við aðra öfgaflokka til vinstri annars staðar í Evrópu. Eða þá breska Verkamannaflokkinn eftir að klíkan í kringum Corbyn hafði rænt þar völdum til ævarandi tjóns fyrir þann annars ágæta flokk. Aðalstefnumál Samfylkingarinnar, afnám stjórnarskrár sem á rætur að rekja til sambærilegra plagga í Evrópu og innlimun ESB á Íslandi og íslenskum auðlindum, segja allt sem segja þarf. Það fólk er fákunnandi um sögu Evrópu sem heldur að stjórnarskrá Íslands sé að uppruna eitthvert sérdanskt fyrirbæri.“
Að lokum heldur Einar því fram að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki útiloka Samfylkinguna, þó hann vonist til að hún muni ekki fá mörg atkvæði, en hann óskar Loga allt í haginn, nema í atkvæðasöfnun.
„Kæri Logi, við sjálfstæðismenn viljum hvorki útiloka þig né þinn flokk. Þvert á móti teljum við að þú eigir að hafa áhrif í samræmi við fylgi. En við vonum, þjóðarinnar vegna, að það haldist í réttu horfi. Á því eru reyndar allar líkur sem betur fer. En ég virði við þig að þú talar hreint út. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að þú aðhyllist öfgafullar vinstrisinnaðar skoðanir sem ekki falla í kramið hjá mörgum. Gangi þér annars allt í haginn nema atkvæðasöfnunin. Af því má aldrei verða að auðlindir Íslands verði færðar Evrópusambandinu að gjöf.“