Prófkjör Sjálfstæðismanna nú um helgina á ekki að hafa farið fram hjá nokkrum enda er það mál manna að leita þarf mörg ár aftur í tímann til þess að finna önnur eins átök svo vel smurðra kosningamaskína.
Tveir sitjandi ráðherrar tókust þar á um fyrsta sætið og kostuðu öllu til. Orðið á götunni á laugardagseftirmiðdegi var að Áslaug Arna hlyti að hafa slaginn, og skal engan undra, hún var alls staðar og naut stuðnings flokksforystunnar í Valhöll. Svo fór hins vegar ekki og Guðlaugur Þór vann sigur. Áslaug lenti í öðru sæti. Diljá Mist, aðstoðarmaður Guðlaugs tók svo þriðja sætið.
Sigurvegarinn eru óneitanlega Diljá Mist og Guðlaugur Þór, líklega í þeirri röð.
En hver tapaði?
Mál manna er nú að Áslaug geti vel við unað þrátt fyrir að hafa ekki fengið það sem hún vildi, enda sýndu samfélagsmiðlar Áslaugu fagna af sama ákafa og Guðlaugur Þór. Þrátt fyrir hið ætlaða tap Áslaugar tryggði hún sér með öruggum hætti annað sætið og þar með oddvitasæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Það er stórt skref upp á við að fara úr 5. sæti í síðasta prófkjöri í að „tapa“ í öðru sæti. Pólitískur ferill Áslaugar Örnu þolir þetta tap auðveldlega. Ekki er endilega víst að ferill Guðlaugs hefði þolað það sama.
Sagt er að Brynjar Níelsson sé hið raunverulega fórnarlamb átakanna. Hefði Brynjar tryggt sér annað sætið með jafn afgerandi hætti og hann gerði í prófkjörinu 2016 hefði hann getað sent þann oddvitaframbjóðanda sem ekki náði fyrsta sætinu á fleygiferð niður listann. Hvorugur frambjóðandinn í fyrsta sætið hafði því fyrir því að setja Brynjar á „sinn lista.“ því að það hefði getað þýtt að Brynjar yrði fyrir ofan þau eins og áður segir. Guðlaugur Þór studdi því aðstoðarmann sinn Diljá í sínum úthringingum og öfugt.
Í kosningabandalagi með Áslaugu voru þau Birgir Ármanns, Hildur Sverris og Friðjón Friðjóns. Af þeim komst Hildur næst því að geta hrósað sigri. Friðjón rétt skreið inn á listann í síðustu tölum og Birgir Ármanns, sitjandi þingmaður og formaður þingflokks Sjálfstæðismanna á þessu kjörtímabili endaði í sjötta sæti og yrði varaþingmaður að óbreyttu.
Annar aðili sem beið sáran ósigur í prófkjörinu er sjálfur formaðurinn, Bjarni Benediktsson en hann studdi Áslaugu Örnu bak við tjöldin. Áslaug naut jafnframt stuðnings frá stjórnendum Morgunblaðsins og sjávarútveginum, enda Sigurbjörn faðir Áslaugar stjórnarformaður bæði Ísfélags Vestmannaeyja og Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins. Nánustu samstarfsmenn Bjarna sáust á vappi með Áslaugu á kjördag og í kosningateiti hennar á laugardagskvöldið en ekki þó með sigurglott á svip. Þá var Guðlaugur vígreifur í funheitri sigurræðu sinni sem fór víða um netheima í kjölfarið: „Þið sáuð til þess að allir þeir sem unnu gegn því, að þeir töpuðu,“ sagði Guðlaugur.
Bjarni Ben svaraði þessu í samtali við blaðamann Vísis fyrr í dag: „Ég veit ekki í hvað er verið að vísa.“