Í dag var lögð fram kvörtun á hendur Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, vegna meintra brota á reglum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Líkt og flestir vita eru flokkssystkinin Áslaug og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra í baráttu um efsta sætið í Reykjavík, en prófkjörið sjálft hefst á morgun. Fréttablaðið greinir frá þessu.
Kvörtunin varðar Magnús Sigurbjörnsson, bróður og kosningastjóra Áslaugar Örnu, en hann á að hafa verið með aðgang að mjög nákvæmri flokksskrá flokksins.
Í kvörtuninni segir:
„Í ljós hefur komið að Magnús Sigurbjörnsson, bróðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, frambjóðanda í prófkjörinu og kosningastjóri, hafði aðgang að flokksskrá Sjálfstæðisflokksins, það er nákvæmar og stöðugt uppfærðar upplýsingar um flokksmenn, í aðdraganda prófkjörsins og eftir að framboðsfrestur í prófkjörinu rann út,“
Þá segir í segir að skrifstofa Sjálfstæðisflokksins hafi ekkert aðhafst í málinu fyrr en umboðsmaður framboðsins hafi óskað eftir upplýsingum síðastliðinn mánudag. Í ljós hafi komið að Magnús hafi haft aðgang að flokksskránni. Þeim aðgangi á síðan að hafa verið lokað.