Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að á höfuðborgarsvæðinu sé almenn hækkun á íbúðarmati 8,9% en 5,2% á landsbyggðinni. Mest er hækkunin í Bolungarvík eða 30,7%, þar næst kemur Kjósarhreppur með 29,4% og þar á eftir Ísafjarðarbær með 23,6% hækkun.
Heildarmat fasteigna hækkar um 7,4% á milli ára og verður 10.340 milljarðar árið 2022. Á síðasta ári hækkaði fasteignamatið um 2,1% á landsvísu og því er hækkunin á milli ára umtalsverð.
Mesta hækkunin er á Vestfjörðum eða 16,3%. Í Skorradalshreppi lækkar það um 2,6%.
Fréttablaðið hefur eftir Margréti Hauksdóttur, forstjóra Þjóðskrár, að hækkunin sé nokkuð meiri heilt yfir landið en fyrir ári síðan og sé það í takt við þróun fasteignaverðs frá febrúar 2020 til febrúar 2021.