Núna stendur yfir umræðuþáttur formanna allra þingflokka í Silfrinu á RÚV. Þar var Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, spurð hvað kjósendur VG hefðu fengið út úr þessu stjórnarsamstarfi, en samstarf VG við Sjálftæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn hefur verið umdeilt.
Katrín sagði að megináherslur VG fyrir síðustu kosningar hefðu verið á loftslagsmál og heilbrigðismál. Flokkurinn hefði verið reiðubúinn að vinna með hvaða flokki sem er sem vildi takast á við þau mál með þeim. Mikill árangur hefði náðst í loftslagsmálum, t.d. með auknum orkuskiptum og breyttum hugsunarhætti. Þá hefði einnig náðst mikill árangur í heilbrigðismálum, t.d. með stóraukinni þjónustu í geðheilbrigðiskerfinu auk þess sem kostnaðarþátttaka sjúklinga væri komin niður á svipað stig og á hinum Norðurlöndunum.
„Ég held að stuðningsmenn okkar séu bara frekar sáttir,“ sagði Katrín.
Frekari fréttir af þættinum verða birtar síðar.