Á morgun verður Silfrið á RÚV tileinkað Alþingiskosningunum í haust og verður boðið upp á klukkustundarlangar umræður formanna allra þingflokka. Þar sem miðað er við þingflokka tekur Sósíalistaflokkur Íslands ekki þátt í umræðunum því hann er ekki á þingi. Sósíalistar hafa hins vegar mælst með þingstyrk í skoðanakönnunum mánuðum saman og líklegt er talið að þeir nái inn þingmönnum í haust.
Þekktasti stofnandi flokksins, Gunnar Smári Egilsson, fer um þetta hörðum orðum í Facebook-hópi flokksins:
„Silfrið á sunnudag, stjórnmálaumræður án sósíalista. Það meikar auðvitað engan sens að sleppa sósíalistum. Þeir hafa mælst inn á þingi í síðustu mælingum MMR, Gallup og Maskínu og hafa haft mun meiri áhrif á samfélagsumræðuna en flestir þessara flokka, hafa í reynd verið virkasta stjórnarandstaðan allt kjörtímabilið. Það gefur því einfaldlega skakka mynd af stjórnmálaástandinu að láta sem sósíalistar séu ekki til. Og það sýnir vel óheiðarleikann á bak við þessa ákvörðun að Egill líkir sósíalistum á veggnum sínum við flokka sem hafa aldrei mælst með nokkuð fylgi (flokka Guðmundar Franklín og Jóhanns Sigmarssonar). Og fer svo að röfla um að listar sósíalista hafi ekki komið fram. Það hafa heldur ekki komið fram neinir listar hjá Sjálfstæðisflokki, Miðflokki eða Flokki fólksins. Egill og Ríkisútvarpið nugga sér ætíð upp við valdið, fólkið sem færir þeim rekstrarfé, og líta á grasrótarhreyfingar á borð við sósíalista sem boðflennur í því partíi. Það að aðeins 1/3 landsmanna beri virðingu fyrir Alþingi og stjórnmálunum sem birtast á myndinni er ekki síst þessu viðhorfi að kenna. Þetta er innilokað samtal og dautt. Sósíalistar hefðu lýst það upp.“
Hinn róttæki Jæja-hópur, sem er hliðhollur Sósíalistaflokknum, er heldur ekki að skafa utan af því þegar hann sendir Silfrinu sína sneið:
„Í Silfrinu á sunnudaginn mæta fulltrúar stjórnmálaflokkanna, allir nema fulltrúi Sósíalistaflokksins sem ekki var boðið. Þó svo að flokkurinn bjóði fram í haust og hafi mælast með stöðugt 5-6% fylgi marga undanfarna mánuði og lengur. Elítan er hrædd við Sósíalistaflokkinn og mun reyna að útiloka hann frá þátttöku eins lengi og hægt er. Það er ekki til marks um lýðræðisást Egils Helgasonar að sniðganga sósíalista með þessum hætti, eina nýja flokknum sem mælist inni á þingi.“
DV leitaði viðbragða hjá Agli Helgasyni við þessari gagnrýni. Hann segir að honum þyki athyglisvert að Fanney Birna sé þar hvergi nefnd á nafn og horft sé framhjá því að þau eru bæði stjórnendur þáttarins. Ákvörðunin um að bjóða flokknum ekki í þennan þátt sé hins vegar fullkomlega eðlileg:
„Kemur frekar skýrt fram að þetta eru umræður formanna flokkanna sem eru á þingi. Þ.e.a.s. þarna eru ekki flokkar sem hafa kunngjört framboð en ekki raungert það, eins og Sósíalistaflokkurinn, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Landsflokkurinn og Frelsisflokkurinn. Alveg í hæsta máta eðlilegt. Það er víst alveg öruggt að engir verða útilokaðir sem koma saman framboði,“ segir Egill.
Egill bætir við að Silfrið hafi ekki farið varhluta af Sósíalistum undanfarin misseri:
„Það er ekki eins og Sósíalistar hafi verið útilokaðir frá þessum þáttum, þvert á móri hafa þeir verið tíðir gestir.“