Segja mætti að Moggamenn hafi horn í síðu Pírata, í það minnsta ef marka má Staksteina dagsins, þar sem föstum skotum er skotið að flokknum og þeirri umræðu sem hann hefur staðið fyrir á Alþingi í vikunni. Ekki virðist Björn Leví Gunnarsson, þingmaður flokksins, þó kippa sér mikið upp við gagnrýnina en hann hefur svarað henni í pistli á Facebook.
„Það hefur verið heldur ömurlegt að fylgjast með umræðu á Alþingi síðustu daga, ekki síst málatilbúnaði pírata sem sökkva æ dýpra í sýndarmennskufenið,“ segir í Staksteinum í dag. Morgunblaðið telur að umræða Pírata í vikunni um traust á stjórnmálum hafi aðeins verið yfirskin til að ná höggi á Katrínu Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Á þriðjudag fór fram sérstök umræða að þeirra frumkvæði undir yfirskriftinni: „Traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.“ Þær umbúðir voru þó aðeins yfirskin því að tilgangur umræðunnar var bersýnilega að stilla forsætisráðherra, sem var til svara, upp og reyna að fá fram útilokunaryfirlýsingu.“
Staksteinaskrifari telur að útilokunarmenningin svokölluð sé nokkuð sem Pírötum líki vel við.
„Útilokunarmenningin er það sem heillar pírata mest um þessar mundir og markmiðið er að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá stjórnarþátttöku. Hingað til hafa flokkar reynt að komast áfram á eigin verðleikum og hafa í leiðinni bent á galla annarra, en píratar hafa enga stefnu. Þeirra markmið um þessar mundir er að ræða spillingu, reyna að finna hana hvort sem við á eða ekki, og klína svo tilbúningnum á einn stjórnmálaflokk.“
Staksteinar telja þó að umræðan hafi litlu skilað öðru en að Píratar hafi sannað að þeir standi ekki fyrir neitt.
„Píratar afhjúpuðu sig illilega í þessari sérstöku umræðu og staðfestu að þeir standa ekki fyrir neitt, ætla öðrum allt illt og vilja nota uppnám og spillingartal til að fleyta sér aftur inn á þing í haust, langt umfram verðleika.
Í fyrradag bættu þeir svo um betur með því að senda erindi til ÖSE með ósk um kosningaeftirlit í haust. Átyllan er meint spilling hér á landi.
Það þarf enginn að undrast að traust á stjórnmálum sé lítið hér á landi þegar slíkir menn veljast á þing.“
Staksteinarnir fóru ekki framhjá Birni Leví sem hefur nú svarað þeim á Facebook-síðu sinni.
„Ó nei, Staksteinum finnst það vera ömurleg umræða að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá völdum. Það er flokkurinn sem nær öll sérstök siðferðisleg álitamál koma frá, enginn getur sýnt fram á annað.“
Björn segir það eðlilega afstöðu að segja stjórnvöldum að taka til hjá sér.
„En Staksteinum finnst það ömurleg umræða. Kannski af því að fjármögnun Morgunblaðsins er einmitt í gegnum sérhagsmunaaðila sem skipta sér af ritstjórn blaðsins? Sérhagsmunum sem hafa svo mikil tengsl við Sjálfstæðisflokkinn að fyrrverandi alræðisherra situr þar í ritstjórastól og núverandi oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn fékk lán frá Samherjafélagi til þess að kaupa hlut í Morgunblaðinu.“
Björn segir að það eigi ekki að þegja um spillingu og sérhagsmunatengsl í stjórnmálum, þeir spilltu treysti því þó að meðvirkni almennings komi í veg fyrir umræðuna.
„Æ, var ég með ömurlega umræðu aftur? Afsakið, þetta er bara svo augljóst að ég get ekki sleppt því að minnast á þetta _af því að samhengi skiptir máli_. Við eigum ekki að þegja um spillingu og sérhagsmunatengsl í stjórnmálum. Það væri ömurleg umræða ef það mætti ekki benda á nýju föt keisarans. Slíkt meðvirknissamfélag er nákvæmlega það sem spillingin vill. „Uss, ekki tala um þetta, þú gætir misst vinnuna“
Björn segir að það þurfi að hætta að fóðra tröllin og best sé að neyða þau aftur ofan í holuna sína.
„Já, þau vilja ekki að það sé talað um þetta. Til þess að koma í veg fyrir það er sussað og sveiað. Móðgast og gert lítið úr. Njósnað og skipaðir skæruliðar.
Nei, er svarið sem á að heyrast við svona yfirgangi. Nei og aftur nei þannig að þessi tröll þurfi að skríða ofan í holuna sína því þau þola ekki sólarljósið. Hættum að lána þeim sólhlíf og sólaráburð og segjum þeim að hunskast í hellinn sinn þar til þau geta hagað sér eins og fólk“