Benedikt Jóhannesson einn af stofnendum stjórnmálaflokksins Viðreisnar tilkynnti í haust að hann gæfi kost á sér í oddvitasæti á einhverjum lista flokksins á Suðvesturhorninu. Flokkurinn ákvað að styðjast við uppstillinganefnd við val inn á framboðslista og hafði formaður nefndarinnar samband við Benedikt síðastliðinn þriðjudag.
„Þorsteinn Pálsson, formaður uppstillingarnefndar, bað mig að hitta sig síðastliðinn þriðjudag. Á fundi okkar sagði hann mér, að það væri einróma niðurstaða nefndarinnar að bjóða mér neðsta sæti listans. Af augljósum ástæðum afþakkaði ég það.“
Benedikt segir að fljótlega eftir að hann gaf kost á sér hafi orðið ljóst að fleiri höfðu hug á því að hreppa oddvitasæti en bara hann. Benedikt vildi að farið yrði í prófkjör sem væri „opið og gagnsætt ferli,“ þegar margir hafa gefið kost á sér í tiltekið sæti. Hins vegar hafi verið ákveðið að notast fremur við uppstillingarnefnd sem hafi svo ekki viljað bjóða Benedikt hærra sæti en það allra neðsta.
Benedikt ætlar þó ekki að hætta í pólitík þó hann hafi fengið þessar köldu kveðjur.
„Þar með er útséð um að ég verði í framboði fyrir Viðreisn að þessu sinni, en ég held áfram í pólitík og styð nú sem fyrr grunnstefnu Viðreisnar, enda hygg ég að ég hafi skrifað megnið af henni. Sjaldan hefur verið brýnni þörf fyrir einbeitta, frjálslynda rödd í samfélaginu og ég mun ekki láta mitt eftir liggja.“