Á fundi borgarráðs Reykjavíkur var í dag samþykkt að þróa Hagatorg sem almenningsgarð og almenningsrými, en falla frá hugmyndum um færanlegan leikskóla þar. Þetta kemur fram í vikulegu fréttabréfi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.
„Verkefnið mun taka á sig mynd í góð samráði og er umferðaröryggi og samspil við nærliggjandi skóla eitt af því sem skoðað verður með sérstaka áherslu á öruggar göngutengingar,“ segir í fréttabréfinu.
Í síðasta mánuði var samþykkt í borgarráði að fjölga leikskólaplássum með leigu á færanlegum einingum og leikskólarútum, til þess að mæta mikilli fjölgun barna í borginni, vistun yngri barna og minnkun á skutli milli borgarhluta. Í borgarráði í dag var síðan samþykkt að setja þrjár staðsetningar undir nýja leikskóla í forgang: Við Nauthólsveg 81, Vogabyggð 5 og Eggertsgötu 35.
Ýmislegt fleira var samþykkt í borgarráði í dag, samkvæmt fréttabréfi Dags, svo sem gerð nýs gervigrasvallar í Laugardal fyrir Þrótt og bygging nýs fjölnota knatthúss fyrir KR í Frostaskjóli.