Þingflokkur Framsóknar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem árásir ísraelska hersins á Palestínumenn er fordæmd. Framsókn segir árásirnar gróft brot á alþjóðasamningum, alþjóðalögum og glæpur gegn mannúð.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
„Þingflokkur Framsóknarflokks fordæmir harðlega árásir ísraelska hersins á Palestínumenn á Gaza ströndinni. Fórnarlömbin eru helst íbúar Palestínu, óbreyttir borgarar, konur og börn. Árásir ísraelska hersins eru gróft brot á alþjóðasamningum, alþjóðalögum og glæpur gegn mannúð.
Fyrir tíu árum samþykkti Alþingi viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu og rétt til eigin ríkis. Átökum verður að linna til að vinna megi að tveggja ríkja lausn á svæðinu. Ofbeldi gegn almennum borgurum eykur vonleysi, vonleysi leiðir til haturs og til verður vítahringur sem þarf að stöðva. Í friði finnst von.“