Það hefur vakið mikla athygli þegar Píratinn Alexandra Briem var skipuð forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Hún markar þar ný spor því hún er fyrsta trans manneskjan sem skipuð er í þessa stöðu.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, er hins vegar ekki hrifin af þessum tíðindum og hún kvíðir því að fá Alexöndru í þetta embætti. Sakar hún Alexöndru um grófa framkomu í garð borgarfulltrúa minnihlutans í borgarstjórn. Þetta kemur fram í stuttum pistli Kolbrúnar á Facebook-síðu Flokks fólksins, þar sem segir:
„Er að hlusta á Alexöndru Briem á ruv, en hún verður kosin forseti borgarstjórnar í dag. Smá ótrúlegt að heyra í henni. Enginn hefur verið með eins grófa framkomu og hún og Dóra Björt gagnvart okkur í minnihlutanum. Alexandra mest af öllu hefur tætt í sig margar tillögur Flokks fólksins sem snúa að börnum og eldri borgurum. Ég kvíði mjög að fá hana í þetta hlutverk forseta borgarstjórnar. Taktíkin er iðulega að hún „skilji ekki alveg hvað verið er að meina“. Sbr. þegar ég lagði fram tillöguna um frístundakortið, að efnaminni foreldrar fengju frekar styrk heldur en að þurfa að nota það til að greiða frístundaheimili barns þá varð ég fyrir heilmiklu háði og spotti en nú segir hún „þetta var bara ekki alveg skýrt hjá þér“.“