Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur, og Halldóra Þorsteinsdóttir, héraðsdómari, voru gestir Fanneyjar Birnu Jónsdóttir í Silfrinu í morgun. Rætt var meðal annars um MeToo-bylgjuna sem er í gangi núna.
Fanney spurði Drífu hvort henni finnist umræðan vera öðruvísi en í fyrri bylgjum.
„Já, gerendur eru að koma fram og velta því fyrir sér: „hef ég kannski farið yfir einhver mörk“ eða „er ég einn af þessum körlum eða gerendum“. Það er kannski helsta breytingin, gerendur eru allt í einu sýnilegir sem eru yfirleitt ekki sýnilegir,“ segir Drífa en að hennar sögn hafa gerendur aldrei verið sýnilegir í þeim málum sem hún hefur átt við.
Halldóra var spurð hvort einhver umræða hafi átt sér stað í dómskerfinu vegna MeToo.
„Ef við horfum 40 ár aftur í tímann, þá hefur mjög mikið breyst. Það kannski gleymist í umræðunni, að bera saman dóma frá 1990 og um aldamótin þegar þeir töldu í mánuðum fyrir kynferðisbrot. Í dag er þetta tvö til fimm ár. Þannig það hefur mjög mikið átt sér stað og ég held að það megi alveg segja það að ákall almennings hafi bæði gert það að verkum að það hefur verið ráðist í lagabreytingar, það hafa verið gerðar nokkrar umfangsmiklar lagabreytingar á þessu sviði sem síðan hefur ratað inn í dómstólana,“ segir Halldóra en að hennar sögn eru miklu fleiri mál dæmd, fleiri ákærur og fleiri sem stíga fram.
Það er ljóst eftir umræður síðustu vikna að dómskerfið hallar á þá sem lenda í kynferðisbrotum, sem eru í miklum meirihluta konur. Halldóra segir það vera ólíðandi hversu lengi mál sitja í dómskerfinu.
„Í sumum málunum, því miður, er bara ekki hægt að ná fram rétti en það verður þó að halda því til haga að umtalsverðar breytingar hafa átt sér stað og ef að fólk skoðar það sem hefur gerst á síðustu 10, 20, 30, 40 árum í dómskerfinu, þá hafa verið tekin mikil stökk. Bæði í dómskerfinu og svo hjá löggjafanum. En allar svona breytingar, með tilliti til jafnræðis og fyrirsjáanleika, þá mega svona breytingar ekki gerast hratt. Þetta verður að gerast smátt og smátt,“ segir Halldóra eftir að hún ræddi um það að Ísland er réttarríki.