Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður hjá Morgunblaðinu, voru meðal gesta Silfursins í morgun. Rætt var um ástandið á Vesturbakkanum og á Gaza-svæðinu en mikil átök hafa geysað þar síðustu daga.
„Staðan í Palestínu og á svæðinu er hræðileg. Ástandið versnar dag frá degi og í nótt héldu loftárásir Ísraelsmanna áfram. Ég spurði að því í ræðunni minni í gær hvort þetta komi okkur við. Auðvitað kemur þetta okkur við, við erum hluti af alþjóðasamfélaginu og við sem samfélag eigum að taka mjög afdráttarlausa afstöðu með mannréttindum og gegn svona viðlíka stríðsátökum og hernaði gagnvart saklausum borgurum,“ sagði Rósa.
Stefán Einar segir stöðuna mjög flókna og að hún sé flóknari en sú mynd sem dregin er upp hjá fjölmiðlum á Íslandi.
„Þetta ástand er mjög viðkvæmt og er algjör púðurtunna,“ sagði Stefán og hélt því fram að Hamas-hryðjuverkasamtökin væru að senda saklausa borgara út á götur til að vera hernaðarskjöldur fyrir loftárásum Ísraelsmanna.
Rósa var ósammála þessari fullyrðingu Stefáns og sagði Ísraelsmenn vera að níðast á minni máttar.
„Ísraelsríki hefur yfir að ráða fimmta öflugasta her í heimi. Leikurinn er ótrúlega ójafn og eins og staðan er í dag hafa 174 Palestínumenn látist í loftárásum. Þar er af um 38-40 börn. Börn eru ekki neinir aðilar að stríði, þetta eru bara saklaus börn sem hafa ekkert sér til saka unnið. Vissulega þá hafa um tíu Ísraelar látist í eldflaugaskeytaárásum, þar af tvö börn. Leikurinn er ójafn og það er það sem þetta snýst um,“ sagði Rósa.
Stefán skaut á Rósu vegna svars hennar.
„Það er mjög merkilegt að Rósa Björk skuli hafna því að Hamas-samtökin skuli setja almenna borgara í skotlínu vegna þess að leiðtogar Hamas-samtakanna viðurkenna það sjálfir. Rósa hefur þá greinilega betri upplýsingar eða betri yfirsýn yfir stöðuna á Gaza-svæðinu heldur en leiðtogarnir sjálfir. Ástandið á Gaza er hræðilegt. Þetta er þriðja þéttbýlasta svæði í heimi, þarna er gríðarleg fátækt, gríðarlegt atvinnuleysi og heilbrigðisþjónustan í molum. Þannig verður þetta ástand á meðan Hamas-samtökin eru við völd,“ sagði Stefán.
Stefán segir það vera með ólíkindum að íslenskir stjórnmálamenn skuli tala þannig að málið sé einhliða.
„Við verðum að dýpka umræðuna og sýna sanngirni í því og reyna að átta okkur á heildarmyndinni. Þar til að það gerist verður engin sátt og Hamas-samtökin eru auðvitað stóra krabbameinið í þessu ástandi,“ sagði Stefán.