Alexandra Briem verður næsti forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Alexandra tekur formlega við embætti forseta í lok næsta fundar borgarstjórnar, þriðjudaginn 18. maí, og verður þar með fyrsta transkonan í sögunni til að gegna embættinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum.
Pawel Bartozek, sem hefur verið forseti borgarstjórnar frá 18. júní 2019, tekur við formennsku í skipulags- og samgönguráði en fyrrverandi formaður ráðsins, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, sagði skilið við stjórnmálin í upphafi mánaðar. Alexandra skipaði þriðja sæti á lista Pírata fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og hefur gegnt stöðu varaborgarfulltrúa á kjörtímabilinu. Það sem eftir lifir kjörtímabils tekur Alexandra sæti borgarfulltrúa í stað Sigurborgar.
Alexandra Briem er þriðji forseti borgarstjórnar á kjörtímabilinu. Þegar nýr meirihluti var kynntur í júní 2018 var tilkynnt að Dóra Björt Guðjónsdóttir yrði forseti borgarstjórnar fyrsta árið, áður en Pawel tæki við embættinu. Með brotthvarfi Sigurborgar um mánaðamótin var talið einsýnt að Pawel yrði formaður skipulags- og samgönguráðs, hvar hann hefur verið varaformaður á kjörtímabilinu, og að Alexandra tæki við stöðu forseta borgarstjórnar í hans stað.
Alexandra skrifaði færslu á Facebook um vistaskiptin, sem má nálgast hér.
Í færslunni segir Alexandra meðal annars: