„Það fór vel á því að formenn systurflokkanna Samfylkingar og Viðreisnar sameinuðust á Alþingi í gær í tangarsókn gegn forsætisráðherra vegna sjávarútvegsins.“
Svona hefst ritstjórnargrein í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. Ritstjórn Morgunblaðsins skýtur hart á Samfylkingu og Viðreisn í pistlinum og segir til að mynda að viðhorf þeirra gagnvart sjávarútveginum sé sérkennilegt og veki upp spurningar um erindi flokkanna í stjórnmálum.
„Samfylking og Viðreisn láta fá tækifæri ónýtt að veitast að þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og virðast kætast sérstaklega lendi sjávarútvegsfyrirtæki í erfiðri umræðu. Það lýsir sérkennilegu viðhorfi til mikilvægrar atvinnugreinar og vekur spurningar – svo ekki sé fastar að orði kveðið – um erindi þessara flokka í stjórnmálum.“
Þá er ritstjórn Morgunblaðsins ekki á því að hækka eigi veiðigjöldin. Sú afstaða kemur eflaust ekki mörgum á óvart þar sem Morgunblaðið er í eigu fjölmargra sjávarútvegsfyrirtækja. „Þau nema milljörðum króna á ári hverju, breytilegt eftir afkomu, og þetta eru gjöld sem engin önnur atvinnugrein þarf að bera,“ segir í greininni.
„Og fyrirtæki í sjávarútvegi erlendis greiða ekki heldur slíkan aukaskatt, en íslensku fyrirtækin þurfa að keppa við þau, jafnvel erlend fyrirtæki á ríkisstyrkjum.“
Ritstjórnin segir „áróður“ Samfylkingar og Viðreisnar ganga út á að sjávarútvegurinn greiði út óhóflegan arð. „Það þykir líklega hljóma vel og líklegt fyrir lýðskrumara í aðdraganda kosninga til að slá nokkrar keilur,“ segir í greininni.
„En staðreyndin er sú að sjávarútvegurinn greiðir alls ekki meiri arð en fyrirtæki almennt. Og lýðskrumsflokkarnir vita eflaust að arðsemi í sjávarútvegi er minni en almennt meðal til dæmis skráðra fyrirtækja. En staðreyndir mega ekki þvælast fyrir þegar kosningar nálgast.“