Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að málið varði skattalagabrot sem Jón Ásgeir, Tryggvi og fleiri voru sakfelldir fyrir 2007 og 2012. Þeim var gert að sæta refsingu, greiða sektir og sakarkostnað.
Jón Ásgeir og Tryggi vísuðu málinu til Mannréttindadómstólsins þar sem þeir töldu að brotið hefði verið gegn ákvæði um að ekki megi sækja menn til saka og gera refsingu oftar en einu sinni fyrir sömu háttsemi. Mannréttindadómstóllinn kvað upp dóm í málinu 2017 og taldi að brotið hefði verið á rétti þeirra með málsmeðferðinni.
Jón Ásgeir og Tryggi óskuðu í kjölfarið eftir endurupptöku á dómi Hæstaréttar í máli þeirra og féllst endurupptökunefnd á það. Hæstiréttur vísaði málinu frá dómi á þeim grunni að skilyrði fyrir endurupptöku væru ekki uppfyllt. Einnig sagði Hæstiréttur að dómur Mannréttindadómstólsins skuldbindi íslenska ríkið ekki til að tryggja endurupptöku máls, það sé hvorki þjóðréttarlega skuldbundið til þess, né sé ákvæði um slíkt að finna í íslenskum lögum.
Í málinu sem nú er rekið fyrir Mannréttindadómstólnum vísa Jón Ásgeir og Tryggvi aftur til ákvæða um að ekki megi saksækja menn oftar en einu sinni fyrir sama brot. Þeir telja einnig að synjun Hæstaréttar á endurupptöku brjóti gegn ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð.