Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur vakið athygli fyrir tíðar skoðanagreinar sem birst hafa í Morgunblaðinu með jöfnu millibili. Meðal annars hefur hann þar verið gagnrýninn á þriðja orkupakkann.
Sumum þykir orka tvímælis að dómari tjái sig um þjóðfélagsmál og lýsi sterkum skoðunum. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt skrif Arnars er Sveinn Andri Sveinsson lögmaður.
Arnar hefur svarað þessari gagnrýni og sagt að dómari hafi bæði rétt og skyldu til að tjá skoðanir sínar. „Sem dómari hef ég unnið drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins. Á þeim grundvelli – og innan þess ramma – tel ég raunar að ég hafi ekki aðeins rétt, sem borgari þessa lands, til að tjá mig um sýn mína á stöðu mála, heldur beina skyldu,“ sagði Arnar í grein sem hann birti í Fréttablaðinu fyrir skömmu.
Fyrir skömmu sagði Arnar sig síðan úr Dómarafélagi Íslands vegna ágreinings um túlkun siðareglna dómara og tjáningarfrelsi dómara.
Í dag var síðan greint frá því í Morgunblaðinu að Arnar gefi kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.
Um þessi tíðindi tjáir Sveinn Andri sig á Facebook-síðu sinni og minnir að Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi forsætisráðherra og meðal helstu lögspekinga á sínum tíma, hafi beðist lausnar frá embætti dómara er hann ákvað að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Sveinn Andri skrifar:
https://www.facebook.com/sveinnandri.sveinsson/posts/10215260193976690