Núna liggur fyrir Alþingi frumvarp um afglæpavæðingu á vörslu neysluskammta fíkniefna. Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um þetta.
Eva Björk Harðardóttir, sem sækist eftir 2.-3. sæti á lista sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, leggst gegn þessum áformum en hún birti grein um málið í Morgunblaðinu í dag.
„Hverju erum við að fórna með þessari hugmynd, og hvenær gáfumst við upp á baráttunni við eiturlyfjabarónana?“ segir Eva. Hún segist skilja vel þær raddir sem halda því á lofti að neysla sé ekki glæpur heldur heilbrigðisvandamál en hún telur lausnina ekki fólgna í því að lögregla hætti að skipta sér af neytendum fíkniefna. Eva segir:
„Áhyggjur mínar snúa að því að það hefur gleymst að koma með tillögur að næsta skrefi, hvað svo? Í dag lætur allavega lögreglan sig málaflokkinn varða. Hingað til hefur fólk ekki farið á sakaskrá fyrir vörslu á neysluskömmtum. Sektir fyrir neysluskammta eru lægri en minnstu hraðakstursbrot. Það er ekki fyrr en málin eru orðin mun stærri að þau eru skráð inn á sakaskrá. Það að gera neysluskammta refsilausa þýðir einnig að lögreglan verður af mikilvægum upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að takast á við og uppræta glæpahringi. Þvert á móti þarf að skapa lögreglunni fleiri tól til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi.“
Eva óttast að áformin feli í sér uppgjöf gegn starfsemi skipulagðra glæpahópa hér á landi:
„Við höfum töluvert heyrt af því að alþjóðlegir glæpahringir sem hafa hreiðrað um sig á Íslandi hafi engin áhrif á líf venjulegs fólks. Það er jafnvel ýjað að því að ef þeir fái frið láti þeir okkur í friði. Þeir myrði bara innan sinna raða, ógni hver öðrum ekki okkur hinum. Afbrot þeirra snerti einungis hinn afmarkaða heim undirheimanna þar sem glæpirnir þrífast. Markaðir þeirra eru stærri en svo, við erum að tala um börnin okkar og barnabörn. Viljum við samfélag þar sem við lifum í sátt og samlyndi við glæpahringi þar sem fíkniefnasala, mansal, vændi, þjófnaður og peningaþvottur fær að þrífast í friði?
Undirheimarnir eru hagnaðardrifnir, það væri barnaskapur að ætla það að afglæpavæðing neysluskammta komi til með að leysa upp fíkniefnaheiminn.“
Eva telur nauðsynlegt að lögregla hafi áfram afskipti af þeim sem neyta fíkniefna og sér ekki hvað ætti að koma í staðinn:
„Ef lögreglan á að hætta að skipta sér af neyslu fólks, hver á þá að gera það? Ætlar starfsfólk heilbrigðiskerfisins að fara út á kvöldin og aðstoða börn og unglinga í neysluvanda, bjarga þeim úr aðstæðum sem þau ráða engan veginn við og koma þeim til aðstoðar?“
Í lok greinar sinnar segir Eva:
„Það er orðið löngu tímabært að við tökum höndum saman og treystum því réttarríki sem við lifum í. Færum lögreglu auknar rannsóknarheimildir til að takast á við síaukna hörku í undirheimum litla Íslands svo við hin getum notið þess frelsis sem öryggið færir okkur.“