Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. „Haustið 2019 var haldinn lokaður fundur á vettvangi Dómarafélagsins um tjáningarfrelsi dómara. Ég óskaði eftir því að þessi fundur yrði opinn og auglýstur enda var mér ljóst að fyrirhugað efni hans var tjáningarfrelsi mitt. Á fundinum var spjótum beint að mér og minni tjáningu og átti hann stóran þátt í því að ég kaus að segja mig úr félaginu,“ hefur Fréttablaðið eftir Arnari Þór.
Hann hefur verið gagnrýninn á siðareglur Dómarafélagsins, meðal annars um takmörkun á borgaralegum réttindum á borð við félagafrelsi. Í siðareglum Dómarafélagsins er mælt gegn þátttöku dómara í stjórnmálastarfi eða félögum þar sem leynd hvílir yfir siðareglum, félagatali eða starfsemi félags. Þetta kemur til dæmis í veg fyrir aðild dómara að félögum á borð við Frímúrararegluna. „Ítrekuð boð mín um að flytja erindi á vettvangi Dómstólasýslunnar og Dómarafélagsins um augljósa ágalla á siðareglum dómara hafa ekki verið þegin,“ er haft eftir Arnari sem sagðist jafnframt hafa skrifað fjölda greina í blöð og tímarit eftir að hann sagði sig úr Dómarafélaginu en hafi ekki fengið neinar efnislegar athugasemdir frá starfsbræðrum sínum í dómarastéttinni.