fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Milljarðaplan ríkisstjórnarinnar kynnt – „Við erum að komast í gegnum þetta“ segir Ásmundur

Heimir Hannesson
Föstudaginn 30. apríl 2021 14:33

Ásmundur Einar Daðason mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á annan tug úrræða verða ýmist framlengd eða innleidd á næstu dögum sem hluta af viðspyrnuáætlun ríkisstjórnar vegna heimsfaraldurs Covid-19. Þetta kemur fram í tilkynningu ríkisstjórnarinnar. Ljóst er að aðgerðirnar nú bera þess merki að faraldurinn sé að sigla sitt skeið. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra segir endalok faraldursins nú nálgast, en ýmsar félagslegar afleiðingar sitja eftir. Þeim megi ekki gleyma.

DV tók Ásmund á tal vegna aðgerðanna, en stór hluti þeirra heyra undir hans ráðuneyti.

Þiggjendur tekjutengdra barnabóta mega vænta þess að fá sérstakan 30 þúsund króna barnabótaauka, gildistími úttektar séreignasparnaðar verður framlengdur út árið 2021, lokunarstyrkir sem áttu að renna út í júní verða framlengdir út árið 2021 og viðspyrnustyrkir útvíkkaðir þannig að miðað verður við 40% tekjufall, en ekki 60% eins og áður.

Hlutabótaleiðin, sem var meðal fyrstu aðgerða ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 faraldursins verður nú felld inn í Hefjum störf átak Vinnumálastofnunar og heyrir því sögunni til. Um leið verður gildistími sex mánaða atvinnuleysisbóta framlengdur til 1. febrúar 2022. Ferðagjöf verður gefin í ár eins og í fyrra og verður um að ræða sömu upphæð sem gilda mun út næsta sumar.

800 milljónum verður þá varið í geðheilbrigðismál barna og ungmenna sem og í félagslegan stuðning við viðkvæma hópa sem farið hafa illa út úr faraldrinum.

Ásmundur Einar segir það ótrúlega góða tilfinningu að sjá nú til enda í þessum faraldri.

Hlutabótaleiðin ei meir

„Nú hafa rúmlega fjögur þúsund störf verið auglýst í Hefjum störf átakinu og því ákváðum við að nýta þann kraft sem þar er og færa hlutabótaleiðina þangað inn. Markmiðið er þá að þeir sem hafa verið á hlutabótum fari í fullt ráðningarsamband og fyrirtækin fái styrk í gegnum Hefjum störf til fjögurra mánaða,“ segir hann. „Við viljum að fólkið sé að vinna frekar en að það sé heima hjá sér. Það er útgangspunkturinn.“

„Hefjum störf átakið er í raun að virka miklu betur en við þorðum að vona. Markmiðið var að fá þar inn 7 þúsund störf og á nokkrum dögum eru komin 4 þúsund. Við verðum búin að ná markmiði okkar á næstu vikum,“ segir Ásmundur ánægður.

Þá segir hann ráðgert að gefa þeim sem hafa verið á atvinnuleysisskrá frá því fyrir Covid-19 faraldurinn 100 þúsund krónu eingreiðslustyrk. „Það hefur verið rætt að áhrif faraldursins eru að leggjast með misjöfnum hætti á fólk á fyrirtæki, og þegar kemur að fjölskyldum þá fellur það hvað þyngst á þá sem voru búin að missa vinnuna fyrir Covid kreppuna. Þessi eingreiðsla á að styrka stöðu þess fólks.“

„Í þriðja lagi höfum við verið að vakta félagslegar aðstæður fólks í ráðuneytinu og höfum í því sambandi verið í góðu samstarfi við félagsmálayfirvöld sveitarfélaganna og aðra aðila og við höfum áhyggjur af þróuninni þar. Því ætlum við nú að koma með innspýtingu upp á 200 milljónir í félagslegar aðgerðir sem eiga að gagnast börnum, eldri borgurum, fólki af erlendum uppruna og öðrum viðkvæmum þjóðfélagshópum. Þar fyrir utan setjum við 600 milljónir í geðheilbrigðismál barna og ungmenna.“

Aðspurður hvernig þeim fjármunum verður varið svarar Ásmundur því til að félagasamtök sem hafa látið sig geðheilbrigði barna varða verði styrkt, svo dæmi sé tekið. „Aðgerðir félagsþjónustu sveitarfélaga verða styrktar, frjáls félagasamtök eins og Rauði krossinn og SÁÁ einnig. Við höfum sett fjármagn inn til barnaverndaryfirvalda og í að efla geðheilbrigðisþjónustu í skólum,“ segir Ásmundur.

„Nú er atvinnuleysi að minnka, landið er að opnast og við erum að finna fyrir því að það verður aukin þörf fyrir því að fjárfesta í geðheilbrigðismálum í landinu,“ segir hann. Aðspurður hvort sú þörf hafi orðið til vegna Covid faraldursins eða sé uppsafnað frá fyrri tíð segir Ásmundur fyrst og síðast verið að fjárfesta í fólki til þess að draga úr langtímaáhrifum Covid-19 faraldursins.

Hlutabótaleiðin langlíf skammtímaaðgerð

„Þegar við komum inn með hlutabótaleiðina upphaflega þá töldum við okkur vera að brúa mjög stutt tímabil. Svo lengdist þessi brú alltaf og varð heilt ár. En það er ótrúlega góð tilfinning að fylgjast með framvindu bólusetninga og við viljum nota þetta tækifæri núna að láta hlutabótaleiðina syngja sitt síðasta og færast inn í önnur úrræði,“ útskýrir hann.

„Það er jafnframt frábært að sjá að við erum loksins að komast í gegnum þennan faraldur. Nú viljum við sjá viðspyrnuna fara af stað af krafti. Allar aðgerðir miða að því, en um leið má ekki gleyma því að félagslegar áskoranir eru enn til staðar. Það bara má ekki gleymast.“

Ásmundur mældist nýverið vinsælasti ráðherrann í ríkisstjórninni á eftir Katrínu Jakobsdóttur og var án nokkurs vafa hástökkvari könnunarinnar, en vinsældir hans tvöfölduðust svo til á nokkrum vikum. Aðspurður hvort Ásmundur sé sjálfur ánægður með störf sín í félagsmálaráðuneytinu á svo krefjandi tímum segist hann fyrst og fremst ánægður með að hafa náð að halda utan um viðkvæma félagslega hópa. „Við höfum náð að koma stórum málum í gegn. Málum sem ég var búinn að ákveða að koma í gegn. Húsnæðismálin voru endurskoðuð og aðgerðir eins og hlutdeildalánum komið á fót, barnalögin og fleira.“ „En nú er seinni hálfleikurinn eftir,“ segir Ásmundur ákveðinn.

Ákvörðun Ásmundar um að gefa kost á sér í Reykjavík í næstu kosningum vakti undrun margra, en hann var áður oddviti Framsóknar í sterkasta kjördæmi flokksins, Norðvesturkjördæmi. Sú ákvörðun þótti vafalaust sérstaklega undarleg í ljósi þess að flokkurinn náði aðeins einum þingmanni inn í báðum Reykjavíkurkjördæmunum, Lilju Alfreðsdóttur, varaformanni flokksins.

„Sumir segja að það hafi verið fífldjarft, en ég ætla að sanna að hún hafi bara verið djörf,“ segir hann, bersýnilega klár í slaginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar