Morgunblaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Steingrími að bókanir hafi byrjað að berast um og eftir páska. „Þetta fer hægt og rólega af stað og er í takt við okkar áætlanir. Ég geri ráð fyrir að erlendir ferðamenn verði á bilinu 5-600 þúsund í ár. Þetta ferðamannaár verður álíka og í fyrra. 2020 byrjaði vel og svo var sumarið ágætt. Ég á samt ekki von á að ferðaiðnaðurinn komist á neinn skrið fyrr en á næsta ári,“ sagði hann.
Hann sagði einnig að Bílaleiga Akureyrar hafi keypt 800 bíla á síðasta ári en hafi upphaflega ætlað að kaupa 1.200 til 1.300 bíla en hafi fært hluta þeirra yfir á þetta ár.
Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Blue Car Rental, sagði að það sé byrjað að lifna yfir bókunum fyrir sumarið. Það sé komið eitthvað af bókunum fyrir maí og þeim fjölgi síðan mánuðina á eftir. Hann sagði að ferðamenn taki varfærin skref og bóki nú bíla með skemmri fyrirvara en venjulega.