„Þetta er algerlega sturlað!“
Þetta segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni í dag. Það sem Drífu finnst vera sturlað eru ummæli Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri. Í frétt mbl.is talar Ásthildur um að kostnaðurinn við rekstur hjúkrunarheimila á Akureyri muni lækka.
Ástæðan fyrir því að kostnaðurinn lækkar er sú að nýir starfsmenn verða ráðnir á öðrum samningum en þeim sem þeir sem unnu fyrir Akureyrarbæ voru á þegar reksturinn var í höndum bæjarins.
„Það á að varpa öllum þeim árangri sem náðst hefur síðustu áratugi í kjarabaráttu starfsfólks hjúkrunarheimila fyrir róða í einni stærstu einkavæðingu síðari ára,“ segir Drífa sem er greinilega ekki sátt með stöðu mála fyrir norðan. „Þjónustan verður ekki betri, reksturinn verður ekki ódýrari þegar þarf að sýna hagnað og laun og kjör starfsfólks versna. Það þarf að vinda ofanaf þessari vitleysu strax!“