Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, segir hegðun Samherja gagnvart Helga Seljan og RÚV smásálarlega.
Ekki hefur farið framhjá mörgum að Samherjamenn bera litla ást til RÚV og Helga eftir umfjöllun Kveiks um málefni Samherja í Afríku og meinta brotastarfsemi þeirra þar. Samherji ákvað að svara fyrir sig með því að birta myndskeið á netinu þar sem starfshættir RÚV og Helga eru gagnrýndir og gerðir tortryggjanlegir. Nú síðast birtist slíkt myndband rétt fyrir helgi.
Fjölmargir hafa stigið fram til að gagnrýna framgöngu Samherja og verja Helga Seljan. Nú hefur Kolbeinn slegist í þann hóp.
„Forsvarsmenn Samherja nýt aauð sinn í endalausar árásir gegn fréttamanni sem þeim finnst hafa verið sér óþægur ljár í þúfu. Og í leiðinni að allri fréttastofu RÚV. Auð sem þeir hafa öðlast við að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Og sækja að einstaka starfsmönnum Seðlabankans.
Þetta er ljótt. Smásálarlegt. Þráhyggjan er slík að manni verður einfaldlega illt að fylgjast með þessu,“ skrifar Kolbeinn á Facebook.
Kolbeinn veltir fyrir sér hvort að forsvarsmenn Samherja séu almennt úr takti við samfélagið og rifjar af því tilefni upp atvik þar sem Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Baldvinssonar forstjóra Samherja, veittist að Má Guðmundssyni þáverandi Seðlabankastjóra eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um Seðlabankamálið.