„Það er merkilegt í sjálfu sér að formaður Sjálfstæðisflokksins geti vel hugsað sér áframhaldandi samstarf við VG. Það er merkilegt fyrir þær sakir að heilbrigðisráðherra hefur ekki beinlínis verið að beita sér fyrir ráðdeild og skynsömum lausnum, sem gagnast íbúum þessa lands sem best.“
Svona hefst pistill sem Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, skrifar en pistillinn birtist í Morgunblaðinu í gær. Í pistlinum hjólar hún í íslenska heilbrigðiskerfið og svo virðist vera sem hún skelli skuldinni á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
„Undanfarin ár hafa hrannast upp biðlistar, ekki aðeins biðlistar vegna liðskiptaaðgerða heldur eru biðlistar í fjölda aðgerða. Um síðustu áramót biðu 517 einstaklingar eftir liðskiptaaðgerð á mjöðm og af þeim höfðu 64% þeirra beðið umfram þá 90 daga sem eru viðmiðunarmörk Landlæknisembættisins,“ segir Kolbrún í pistlinum.
Hún bendir þá á að 999 einstaklingar hafi beðið eftir aðgerð á hné og að 72% þeirra hafi beðið lengur en í þá 90 daga sem miðað er við. „Beðið var eftir rúmlega 1.700 aðgerðum á augasteinum og þar af voru 53% umfram 90 daga viðmiðið. Fleira mætti nefna en til að gera langa sögu stutta þá voru það aðeins fjórir aðgerðaflokkar af 18 sem ekki fóru yfir 90 daga viðmiðunarmörkin. Það voru kransæðaaðgerðir, hjartalokuaðgerðir, brjóstnámsaðgerðir og aðgerðir á blöðruhálskirtli.“
Drög að reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands má sjá í samráðsgátt stjórnvalda. Anna segir að ýmsar spurningar vakni við lestur þessara draga.
„Er til dæmis verið að rígfesta enn frekar þá biðlistamenningu sem hefur vaxið svo um munar undanfarin misseri með tilheyrandi þjáningum þeirra sem bíða? Eða er nú endanlega komin sönnun þess sem margir höfðu óttast, að tvöfalt heilbrigðiskerfi yrði að veruleika?
Aðfarir
Anna talar þá um aðfarir, annars vegar aðför að rekstri hjúkrunarheimila og hins vegar aðför að heilsu kvenna. Hún byrjar á að fara yfir hjúkrunarheimilin en hún segir rekstur þeirra vera í uppnámi. Hún segir að uppnámið megi rekja til saminga á milli Sjúkratrygginga Íslands og þeirra sem tekið hafa að sér rekstur heimilana.
„Sveitarfélög þurftu að segja upp samningum sínum við SÍ þar sem engin hlustunarskilyrði voru við heilbrigðisráðuneytið og ekkert samræmi milli hjúkrunarþarfa íbúa og daggjalda. Þau sveitarfélög sem áttu í hlut höfðu ítrekað bent á það, en án árangurs. Íbúar hjúkrunarheimila eru oft nefndir okkar viðkvæmasti hópur og þess vegna á að vanda til verka með virðingu að leiðarljósi. Daggjöld ríkisins dugðu á engan hátt fyrir rekstrinum og til að toppa tregðu SÍ sem samningsaðila stóð til að segja upp öllu starfsfólki.“
Kolbrún segir að sem betur fer hafi uppsagnir verið dregnar til baka. „Meirihluti starfsfólks eru konur og merkilegt að sú staða hafi komið upp, að stefna starfsöryggi þeirra í fullkomna óvissu, sama starfsfólk sem hefur lagt á sig ómælda vinnu og umhyggju gagnvart því heimilisfólki sem býr á heimilunum. Það á aldrei að vanmeta góð og traust tengsl á milli starfsfólks og heimilismanna,“ segir hún.
„Til skammar“
Næst talar Kolbrún um heilsu kvenna og nefnir þá helst vandamálið varðandi skimanir fyrir krabbameinum hjá konum. „Í byrjun árs 2019 tók heilbrigðisráðherra ákvörðun um að færa skimanir fyrir krabbameinum hjá konum yfir til opinberra stofnana. Nú á að ríkisvæða forvarnir. Í byrjun árs lá ljóst fyrir að gengið yrði til samninga við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og að rannsóknarstofa í Danmörku ætti að standa að greiningum á leghálssýnum, þrátt fyrir að fullkominn búnaður væri til hér á landi,“ segir hún.
Kolbrún segir að þessi tilfærsla skimana sé ein allsherjaraðför að heilsu kvenna en margar konur bíða enn eftir niðurstöðu úr skimuninni. „Þær fá misvísandi svör, ef þá þær fá þá svör og það er með öllu óásættanlegt að setja konur í þessa óvissu, biðin ein og sér er algerlega óboðleg. Hvernig staðið hefur verið að flutningi skimana fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum til heilsugæslu og sjúkrahúsa hefur vægast sagt verið til skammar,“ segir hún.
„Öll þessi atburðarás er furðuleg og aðför að velferð landsmanna. Mál er að linni.“