„Síðastliðið ár hefur verið gert hlé á ýmsu því sem áður taldist til almennra mannréttinda vegna veirufaraldurs. Það var talið nauðsynlegt. En á sama tíma leggur ríkisstjórnin nú fram sérstakt frumvarp um lögleiðingu annars faraldurs sem er ekki síður hættulegur. Það er frumvarp um lögleiðingu fíkniefna. Verði frumvarpið samþykkt verður Ísland í sérflokki á heimsvísu hvað varðar leyfi frá ríkinu til að fara með og neyta eiturlyfja.“
Svona hefst grein sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, skrifar en pistillinn birtist í Morgunblaðinu í dag. Í pistlinum ræðir Sigmundur um mögulega afglæpavæðingu fíkniefna en hann er svo sannarlega á móti þeirri hugmynd. „Málið er hið nýjasta frá ríkisstjórninni úr flokki „nýaldarstjórnmála“. Í slíkum stjórnmálum eru hlutir jafnan endurskírðir á þann hátt sem best var lýst í skáldsögum Orwells. Enda snýst allt um umbúðirnar. Fyrir vikið tala stjórnvöld nú ekki um lögleiðingu fíkniefna. Þess í stað hafa þau tekið upp orðskrípið „af-glæpa-væðing“,“ segir Sigmundur í pistlinum.
Sigmundur er á því að um sé að ræða „einhverja róttækustu lögleiðingu fíkniefna sem fyrirfinnst“. Hann segir talsmenn lögleiðingarinnar hafa vísað til þess að baráttan við eiturlyf hafi ekki unnist og því sé baráttan sjálf tilgangslaus. „Þessi „rök“ hafa alltaf verið sérkennileg í því ljósi að frá fornu fari þekkjum við mennirnir ótal viðfangsefni þar sem endanlegur sigur mun aldrei vinnast en þó augljóst að ekki megi hætta baráttunni gegn hinu illa. Sjúkdómar eru nærtækt dæmi. Þeim verður seint útrýmt en það þýðir ekki að við eigum að hætta að berjast gegn þeim. Það sama má segja um glæpi.“
„Hvað er‘idda maður, þetta er löglegt“
Sigmundur vill meina að á meðan fíkniefni eru ólögleg þá séu stjórnvöld á sama tíma að senda skilaboð um að þau séu hættuleg. „Það að eitthvað sé ólöglegt er sterk hindrun,“ segir hann og tekur svo í sama streng og hann gerði fyrr í vikunni þegar hann sagðist aldrei hafa séð eiturlyf. Þau ummæli vöktu mikla athygli á samfélagsmiðlum hér á landi.
„Með lögleiðingu fíkniefna eru stjórnvöld í raun að gefa leyfi til að prófa. Í ótal samkvæmum á námsárunum og á ólíkum vinnustöðum varð ég aldrei var við eiturlyf. Eflaust voru þau stundum skammt undan en fólk var ekki að flíka þeim vegna þess að þau voru ólögleg.“
Ef fíkniefni yrðu afglæpavædd er Sigmundur hræddur um að raunin verði önnur. Hann segir að ungmenni landsins muni ekki hika við að mæta með „slík efni“ í samkvæmi ef fíkniefnin verða afglæpavædd. „Það verður þá freisting fyrir aðra að prófa og jafnvel erfitt að fylgja ekki ef vinirnir gera það. Það verður aukin hætta á „smiti“ í hverju bekkjarpartíi („hvað er‘idda maður, þetta er löglegt“). Fjöldi fólks sem ella hefði ekki komist í tæri við slíka freistingu eða hópþrýsting mun eiga á hættu að komast í kynni við fíkniefni og margir ánetjast þeim.“
„Hver verður ábyrgð stjórnvalda þá?“
Sigmundur segir að allir sem hafa orðið fíklar hafi byrjað á einum skammti og veltir því fyrir sér hversu mikið magn af fíkniefnum verða afglæpavædd með frumvarpinu sem um ræðir.
„Hvað á ríkisstjórnin við þegar hún talar um neysluskammta? Hún virðist ekki vita það sjálf því samkvæmt frumvarpinu á að fela ráðherra að skilgreina það síðar í reglugerð. Það er með öðrum orðum verið að fara fram á að þingmenn samþykki eitthvað sem hvorki þeir né ríkisstjórnin vita hvað er,“ segir hann.
„Í umræðu um frumvarpið kom fram að ráðherrann sem flytur málið veit ekki sjálfur hvað neysluskammtur er. Það stendur víst til að komast að því meðal annars með samtölum við fíkniefnaneytendur. En neysluskammtur eins getur verið banabiti annars. Þekkt eru dæmi um að ungmenni hafi látist eftir að hafa reynt eiturlyf í fyrsta skipti.
Hvað gerist þegar einhver deyr af „ráðlögðum neysluskammti“ samkvæmt reglugerð ráðherra? Hver verður ábyrgð stjórnvalda þá?“
Þá finnst Sigmundi það vera furðulegt að 18 ár einstaklingur megi vera með kókaín á sér en ekki bjórdós. „Þannig verður komin upp sú staða að lögreglan getur tekið bjórdós af 18 ára ungmenni en ef sami einstaklingur er með 10 poka af kókaíni getur viðkomandi sagt löggunni að hypja sig,“ segir hann.
„Upp á líf og dauða“
Að lokum líkir Sigmundur Íslandi við Kristjaníu, fríríkið í Danmörku. „Í frumvarpinu er vísað til reynslu annarra landa og meintra fordæma sem eru þó allt annars eðlis ef að er gáð. Raunin er sú að verði frumvarpið að lögum verður Ísland sér á parti varðandi frelsi til eiturlyfjaneyslu. Lög landsins munu þá ganga langt umfram það sem viðgengst í Kristjaníu í Kaupmannahöfn, hvort sem litið er til formlegra reglna eða raunverulegrar framkvæmdar þeirra,“ segir hann og bætir við að hann vonist til þess að menn nái áttum áður en „Ísland gerist leiðandi í lögleiðingu eiturlyfja“.
„Annars verða gerð stórkostleg mistök í máli sem er raunverulega upp á líf og dauða.“