Jónína Bjartmarz, formaður Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins og fyrrum umhverfisráðherra, er mikill aðdáandi Kína og hefur til að mynda rekið veitingastað þar í landi. Henni finnst fordómar gagnvart Kínverjum vera miklir og segir þá vera byggða á vestrænum áróðri. Jónína segir frá þessu í pistil sem hún skrifar í Morgunblaðið í dag.
„Íslendingar sem koma í fyrsta skipti til Kína lýsa jafnan undrun sinni á hversu allt er þar með öðrum brag en þeir ætluðu. Kona ein, sem hóf Kínaævintýri sitt fyrir nokkrum árum í Peking, sagðist hafa búist við mikilli mannþröng og troðningi alls staðar og að allir klæddust maójökkum og væru með grímu vegna mengunar. Það sem við henni blasti hins vegar var heiður og blár himinn, frjálslegt og fallega klætt fólk á gangi í rólegheitum og hún sá engan með andlitsgrímu. Hún sagði enga aðra skýringu á þessum ranghugmyndum sínum en ófullnægjandi og oftast neikvæða umfjöllun fjölmiðla hér heima um Kína og Kínverja,“ skrifar Jónína en í gær var Jónas Haraldsson lögfræðingur settur á svartan lista Kínverja og má því ekki ferðast til landsins.
Jónas er eini Íslendingurinn á þessum lista og voru það skrif hans í Morgunblaðið sem komu honum þangað. Hann hefur gagnrýnt umgengni við fasteign sem var í eigu kínverska sendiráðsins í skrifum sínum, rætt þátt Kína í Covid-19 heimsfaraldrinum og kínverska ferðamenn.
Jónína segir alls kyns alhæfingar um Kína og Kínverja vera undirrót fordóma. Hún vill þó meina að erfitt sé að taka mark á þeim í ljósi stærðar og fjölbreytni þjóðarinnar.
„Kínverjar eru meira en tvisvar sinnum fleiri en allir Evrópubúar og Rússar samtals. Auk þess er kínverska þjóðin samsett af að minnsta kosti 56 þjóðernisbrotum (e. ethnic groups), Han-Kínverjum og 55 minnihlutahópum, hver með sína sögu og menningu. Þótt ritmálið sé nánast eitt og það sama skipta tungumál og mállýskur í Kína hundruðum. Það sem við í daglegu máli köllum kínversku er mandarín, ríkismálið sem kennt er í öllum skólum og gerir Kínverjum kleift að eiga innbyrðis samskipti,“ segir Jónína en eitt af því sem heimsbyggðin hefur gagnrýnt við Kína er eins barns reglan þeirra. Samkvæmt henni mega hjón aðeins eignast eitt barn og var reglan sett á til að styðja gegn offjölgun.
Reglan er þó ekki í gildi enn í dag þar sem tala þeirra sem fengu undanþágu frá henni hækkaði stanslaust. Til dæmis máttu hjón sem sjálf voru einbirni eignast fleiri en eitt barn og þeir sem höfðu fjárhagslega burði til að ala fleira en eitt barn fengu einnig undanþágu. Þessi 55 þjóðernisbrot sem rætt var um hér á undan voru einnig undanskilin reglunni.
„Ekki aðeins hafa Uyghur-Kínverjar og önnur minnihlutaþjóðernisbrot verið undanþegin skipaninni um eitt barn, heldur er það bundið í stjórnarskrá Kína að þau njóti jafnframt ýmissa forréttinda og hlunninda umfram Han-Kínverja. Þessu er ætlað að styðja við og tryggja sterkari félagslega, efnahagslega og fjárhagslega stöðu þeirra. Þannig greiða þau að einhverju leyti lægri skatta og til nemenda sem þessum þjóðernisbrotum tilheyra eru gerðar minni kröfur, bæði hvað varðar inngöngu í háskóla og frammistöðu í námi,“ segir Jónína að lokum.