Þetta kemur fram í grein eftir Guðlaug í Morgunblaðinu í dag. Þar bendir Guðlaugur á að þjóðir heims hafi staðið frammi fyrir miklum áskorunum síðasta árið vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Fátækari ríki heimsins glími nú við ný vandamál sem hafi bæst við þau sem voru fyrir og hafi þau verið ærin. Hann segir að Ísland muni áfram leggja sitt af mörkum til að styðja þessi ríki.
Hann segir að samkvæmt tölum frá þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD DAC) hafi framlag Íslands til þróunarsamvinnu verið 0,29% af vergum þjóðartekjum á síðasta ári. „Með framlagi okkar sýnum við enda ábyrgð í samfélagi þjóðanna og leggjum okkar af mörkum við að uppræta fátækt og bæta lífskjör. Um leið berum við einnig ábyrgð gagnvart íslenskum skattgreiðendum um ráðdeild og skynsemi í nýtingu opinbers fjár. Gagnsæi og ábyrgð er lögð til grundvallar meðferð slíkra fjármuna og stendur Ísland skil á öllum tengdum útgjöldum gagnvart OECD DAC,“ segir Guðlaugur.
Hann segir síðan að stöðugt sé unnið að umbótum og nefnir sérstaklega tvö verkefni sem nú er unnið að innan utanríkisráðuneytisins. Hann segist hafa ákveðið að láta gera úttekt á útgjöldum vegna þjónustu innanlands við umsækjendur um alþjóðlega vernd og kvótaflóttafólk en þetta telst til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. „Þessi útgjöld námu hartnær 1,5 milljörðum króna á árinu 2020 og rúmum sjö milljörðum króna á tímabilinu 2015 til 2019. Fjögur önnur ráðuneyti veita tengda þjónustu og hef ég því leitað eftir samvinnu við þau vegna úttektarinnar,“ segir Guðlaugur í grein sinni.
Hitt verkefnið snýr að opnun gagnagrunns um stuðning Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. „Þar mun almenningi og haghöfum gefast kostur á að kynna sér hvernig stuðningi Íslands er háttað, að hvaða þróunarsamvinnuverkefnum er unnið og hvert og hvernig framlag íslenskra skattgreiðenda skilar sér,“ segir hann.
Hann bendir síðan á að samkvæmt viðhorfskönnunum sé mikill stuðningur meðal þjóðarinnar við alþjóðlega þróunarsamvinnu og vísar í könnun Maskínu frá því í fyrra þar sem fram kom að 77,8% aðspurðra þótti mikilvægt að Ísland veiti þróunarríkjum og íbúum þeirra aðstoð. Hvað varðar mannúðaraðstoð sögðust rúmlega 90% telja hana mjög eða fremur mikilvæga. „Umfangið er hins vegar umtalsvert og því mikil ábyrgð falin í að fara með þau stjórnarmálefni er varða þróunarsamvinnu. Þörf fátækustu ríkja veraldar fyrir aðstoð helst í hendur við þær margþættu áskoranir sem tengjast heimsfaraldri, auknar efnahagsþrengingar og loftslagstengdar hamfarir svo fátt eitt sé nefnt. Við lifum á miklum umbrotatímum og við verðum að gera þá kröfu að sú aðstoð sem við Íslendingar bjóðum fram sé nýtt á sem allra skilvirkastan máta. Þetta kallar jafnframt á sífellda endurskoðun á stuðningi og starfi Íslands innan allra málaflokka, auk þess sem leggja þarf gagnsæi og ábyrga meðferð fjármuna til grundvallar öllu starfi í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Mikilvæg skref verða stigin í þá átt á komandi mánuðum,“ segir hann síðan að lokum.