10.-12. apríl fór fram rafrænt forval hjá Vinstri grænum í Suðurkjördæmi. Valið var í efstu fimm sæti á framboðslista hreyfingarinnar í komandi alþingiskosningum.
Hólmfríður Árnadóttir skólastjóri mun skipa fyrsta sæti listans, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi og sveitarstjórnarmaður í Skaftárhreppi, skipar annað sæti og Sigrún Birna Steinarsdóttir, formaður Ungra Vinstri grænna, skipar það þriðja.
Það vekur mikla athygli að Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, nær aðeins fjórða sæti á listanum og Róbert Marshall, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar, kemst ekki á lista.
Kolbeinn hefur setið á þingi síðan árið 2016 og er varaformaður þingflokks Vinstri grænna. Hann er einnig með sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Atkvæði skiptust svo:
1. sæti Hólmfríður Árnadóttir með 165 atkvæði
2. sæti Heiða Guðný Ásgeirsdóttir með 188 atkvæði í 1.- 2. sæti
3. sæti Sigrún Birna Steinarsdóttir með 210 atkvæði í 1.- 3. sæti
4. sæti Kolbeinn Óttarsson Proppé með 176 atkvæði 1.- 4. sæti
5. sæti Helga Tryggvadóttir með 264 atkvæði 1. – 5. sæti
Alls greiddu 456 manns atkvæði og var kjörsókn 68%. Auðir seðlar voru sex talsins og ekkert atkvæði var ógilt.