fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Silfrið: Brostin samstaða um sóttvarnir og feluleikir Svandísar og Þórólfs – „Hann vildi bara ekkert fá þetta í Landsrétt“

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 11. apríl 2021 12:20

mynd/samsett skjáskot ruv

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brostin samstaða meðal þjóðarinnar um aðgerðir gegn Covid-19 faraldrinum, farsóttahúsið og fyrirsjáanleiki afléttinga var meðal umræðuefna í Silfri Egils á RUV í morgun. Gestir Egils Helgasonar að þessu sinni voru þau Gunnar Smári Egilsson formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir upplýsingafulltrúi, Andrés Magnússon blaðamaður og Guðmundur Steingrímsson fyrrverandi alþingismaður.

Gunnar Smári sagðist ekki upplifa það svo að samstaðan væri brostin. Þvert á móti sagði hann enn mikla samstöðu meðal almennings um að styðja sóttvarnaryfirvöld og óskir þeirra um að fá að nota farsóttahúsið. Hann sagði lögin hafa verið gölluð og að ráðuneytið hafi ekki tekið tillit til þess að heimildin væri takmörkuð. Engu að síður væri það vilji almennings að koma á fót farsóttahúsum og nota þau. „Meirihluti er hlynntur þessum aðgerðum,“ sagði hann. Taka þyrfti tillit til þess vilja almennings. „Ég er populisti,“ sagði Gunnar.

Andrés benti á að skipta þyrfti umræðunni upp í tvennt. Annars vegar um aðgerðirnar gegn Covid-19 í heild og hins vegar lögmæti þeirra, sem væri allt annað mál. „Meirihluti Íslendinga,“ sagði Andrés, „eru hlynntir aðgerðir ef þörf krefur. En það hvílir líka sú skylda á stjórnvöldum að það sé gætt að meðalhófi og að þau beiti aðeins vægustu úrræðum sem völ er á.“

Andrés segir þingið hafa kosið að gefa sóttvarnaryfirvöldum ekki „opinn tékka“ í þessum málum og að virða þyrfti þá ákvörðun þingsins. Þá segir Andrés „feluleik“ heilbrigðisráðuneytisins um gögnin er vörðuðu setningu reglugerðarinnar umræddu ámælisverðan. Þegar gögnin voru loks opinberuð segir Andrés það hafa komið í ljós að lítið var hugað að lögmætisspurningum. „Hið ótrúlega kom þá í ljós að það hafði bara enginn þar leitt hugann að því að það væru spurningar um lögmæti, eða spurningar um stjórnarskrá og slíkt. Þau hugsuðu ekkert út í þetta fyrr en allt var komið í óefni.

„Umfram allt er stjórnsýslan þarna í molum,“ sagði Andrés.

Þegar umræðan barst svo að þeim tíma sem það tók Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni að fara með málið fyrir dóm segir Andrés hann hafa dregið lappirnar með að höfða málið eins og honum var lagalega skylt að gera. „Hann vildi bara ekkert fá þetta í Landsrétt, það blasir við.“

Guðmundur Steingrímsson rifjaði upp „gömlu dagana,“ þegar tónninn í þríeykinu var sá að það fagnaði allri gagnrýni. Hann sagði annað upp á teningnum núna og spurði hvort þreyta gæti verið komin í mannskapinn. „Nú er hætt við að sóttvarnaryfirvöld fari svolítið að missa salinn.“

Guðmundur benti jafnframt á að nú þegar byrjað væri að bólusetja almenning væri hætt á að það skapaðist togstreita á milli þeirra bólusettra og hinna. „Ætlum við þá að fara að gera greinarmun á þeim sem hafa bólusetningarskírteini, mega þeir fara til útlanda og aðrir ekki, eða?“

Hvað varðaði dómsmálið sagði Guðmundur að málið sýndi að við búum í landi þar sem þarf lagaheimildir til þess að skikka borgarana til einhvers. „Við erum hér að tala um að það var verið að segja Íslendingum að þeir mættu ekki fara heim til sín. Að þeir yrðu að fara á hótel í Þórunnartúni, og þeir fengu ekki að ræða það við neinn. „Mér finnst það bara ágætt að við höfum dómstóla og gagnrýnisvald sem segir að þú verður að hafa lagaheimild til þess að gera svona lagað.“

Að lokum virtust allir viðmælendur sammála um að klúðurslegt hafi verið að „gestir“ farsóttarhússins hafi ekki getað farið út og að slíkt hafi skemmt mikið fyrir hugmyndinni.

Þegar talið barst að afléttingaráætlun mátti gæta efasemda hjá Þóru Kristínu. Hún sagði erfitt að krefjast fyrirsjáanleika hjá faraldri sem væri í eðli sínu ófyrirsjáanlegur. Guðmundur sagði þó að skynsamlegt væri að biðja um afléttingaráætlun. „Við ættum að reyna að koma á einhverjum fyrirsjáanleika.“

Andrés benti á að í Noregi og í Danmörku hafa verið settar upp áætlanir sem miða við hversu vel gengur að bólusetja þjóðirnar. „Þegar við erum komin í 60%, þá getum við slakað ákveðið mikið á, og svo meira þegar við náum 70%,“ sagði hann. „Það þarf ekkert dagsetningar á áætlanirnar, en þegar við vitum að búið er að bólusetja alla yfir 60 ára, þá hljótum við að geta slakað meira á.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar