fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Farsóttarfangelsið

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 9. apríl 2021 17:30

Farsóttarhús stjórnvalda. mynd/Stefán

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sama hversu ánægjulegt hefur verið að dvelja erlendis; alltaf finnst mér jafngott að lenda á Keflavíkurflugvelli. Á þessu varð breyting síðastliðinn föstudag er ég kom til landsins með vél Icelandair frá Frankfurt. Móttökurnar voru allt annað en vinsamlegar; lögregluþjónar á hverju horni flugstöðvarinnar sem gáfu fólki skipanir um hvar það ætti að standa og sitja og alls tók hálfa aðra klukkustund að komast í gegnum kórónuveiruskimun og tollskoðun þrátt fyrir að farþegar væru sárafáir. Eðli máls samkvæmt voru ýmsir órólegir – jafnvel fullir örvæntingar – enda fyrirskipað að halda í nauðungarvistun, eins konar sóttvarnarvarðhald.

Draumar Ingu rættust

Fyrir rúmu ári síðan krafðist Inga Sæland, annar tveggja þingmanna Flokks fólksins, þess að allir Íslendingar sem kæmu frá Tenerife yrðu skikkaðir í sóttkví í Egilshöll og „gjöra svo vel að vera þar, þangað til að við gætum séð hvort þeir væru sýktir eða ekki,“ eins og hún orðaði það. Inga hafði fyrr viðrað ámóta sjónarmið og talað fyrir því að landinu yrði lokað fyrir allri utanaðkomandi flugumferð þar til faraldrinum lyki.

Á þeim tíma var ýmist hlegið að þessu tali Ingu eða hún sökuð um ofstæki. Síðan þá hafa stjórnvöld hert svo tökin á borgurunum með sífelldum lokunum að komið var á fót eins konar farsóttarfangelsi – að mestu án teljandi mótbára.

Að axla ábyrgð á mistökum

Það er kunnara en frá þurfi að segja að ekki var lagastoð fyrir reglugerð heilbrigðisráðherra um nauðungarvistunina. Á þriðja hundrað manns voru sviptir frelsi sínu með ólögmætum hætti, leigt var eitt stærsta hótel landsins, fjöldi manns ráðinn í vinnu og enn liggur ekki fyrir hversu miklu af fjármunum skattgreiðenda var sólundað í þetta verkefni. Við blasir að ráðherrann hefur valdið gríðarlegu tjóni með aðgerðum sínum og raun með ólíkindum að hann axli ekki ábyrgð á þeim augljósu mistökum sem gerð hafa verið. Hann hefur ekki einu sinni séð sóma sinn í að biðja þá afsökunar sem urðu fyrir hinni ólögmætu nauðungarvistun.

Í kjölfarið hefur fjöldi málsmetandi manna og kvenna fullyrt að vegið sé að sóttvörnum með úrskurði héraðsdóms í málinu og almenningi búin stórhætta. Alþingismenn stíga jafnvel fram og heimta breytingar á lögum svo veita megi heilbrigðisráðherra enn víðtækari heimildir til skerðingar á mannréttindum. Lærdómurinn af úrskurði héraðsdóms ætti þó þvert á móti að vera sá að gjalda skyldi varhug við slíku.

Auðvitað þarf að gæta að sóttvörnum til lágmarka smit en réttarríkið setur aðgerðum takmörk. Möguleg brot einhvers á sóttkví í heimahúsi geta ekki kallað á nauðungarvistun allra sem koma til landsins.

Hvað með lög og rétt?

Fyrir hálfum mánuði nefndi ég í pistli í DV að ég teldi verulega skorta á að önnur sjónarmið en læknisfræðileg kæmust að þegar teknar væru ákvarðanir í sóttvarnarmálum. Efnahagslega þáttinn yrði að taka með í reikninginn og sömuleiðis þann lagalega, sér í lagi að ekki yrði gengið lengra í skerðingum á mannréttindum en þörf krefði.

Alþingi er að störfum árið um kring og hægur vandi að kalla það saman með afar skömmum fyrirvara svo hægt sé að taka ákvarðanir um sóttvarnir með lýðræðislegri hætti en nú tíðkast. Ekki gengur að jafnviðurhlutamiklar ákvarðanir sem varða alla borgara séu aðeins í höndum eins ráðherra – ákvarðanir sem geta lagt heilu atvinnugreinarnar í rúst og urðu núna seinast til þess að hundruð manna voru svipt frelsi sínu að ósekju.

Stóra myndin

Ég hef áður haldið því fram hér í þessum pistlum að í reynd séu mannréttindi og lýðræði miklu umdeildari hugtök en ætla mætti af almennri umræðu. Þeir fáeinu stjórnmálmenn sem gagnrýndu nauðungarvistunina beittu fyrir sig lagalegum matsatriðum eins og að hér kynni að vera farið út fyrir meðalhóf og þess háttar en létu hjá líða að horfa á stóru myndina: Hvernig getum við látið það viðgangast að fólk sem hingað kemur til lands (íslenskir ríkisborgarar þar með taldir) með fullgild vottorð þess efnis að það sé heilbrigt sé svipt frelsi sínu á grundvelli þess að kunni mögulega að reynast sýkt af tilteknum smitsjúkdómi? – Og það þótt viðkomandi geti dvalið vandkvæðalaust í sóttkví á eigin vegum. Mér þykir blasa við að stjórnmálamenn skortir verulega virðingu fyrir mannhelgi og mannlegri reisn.

Ferðalög ekki forréttindi

Auðvitað eru allar aðgerðir stjórnvaldar settar af góðum hug – en gleymum ekki að leiðin til ánauðar er vörðuð fögrum fyrirheitum. Það er ekki svo að öll meðul séu leyfileg í baráttu við farsótt og kannski er sú tilhneiging margra að ekki megi gagnrýna stjórnvöld í þessum efnum háskalegri en hin margumrædda kórónuveira – jafnvel margfallt háskalegri.

Mannréttindi eru ekki eitthvað sem ráðamenn eiga að geta kippt úr sambandi að geðþótta með einföldum stjórnvaldsfyrirmælum. Og það eru ekki forréttindi að fá að ferðast milli landa heldur almenn mannréttindi.

Réttarríkið

Það vekur furðu hversu margir málsmetandi menn og konur taka frelsisskerðingum af léttúð. Mörgum finnst aldrei nóg að gert. Sífellt megi beita harðari aðgerðum og þar með skerða mannréttindi frekar. Ef til vill myndu margir hinir sömu kjósa að gera sóttvarnarlækni að einræðisherra um óákveðinn tíma „meðan við ráðum niðurlögum veirunnar“ eins og nú er tekið til orða.

Eftir stendur að lýðræði og mannréttindi virðast því miður eiga sé alltof fáa formælendur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
29.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel
EyjanFastir pennar
22.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!