„Alla jafna hefur það ekki þótt fréttnæmt að ég fari til útlanda í stuttan tíma hvað þá að það verði aðalfrétt þegar ég kem til baka. Ég var ekki að koma frá tunglinu eftir frækilega göngu í gömlum sporum Armstrongs. Í sama flugi voru á þriðja hundrað Íslendinga, allt yndislegt fólk sem ég trúi að kjósi mig næst verði ég í framboði.“
Svona hefst færsla Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag. Brynjar fékk harða gagnrýni frá Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í kjölfar frétta af ferð Brynjars til Spánar. Kári Stefánsson var viðmælandi Kastljóss í gær og þar var hann ekki sáttur með ferð Brynjars. Hann líkti honum til að mynda við fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump.
„Þegar ég kom út af flugstöðinni í gærkvöldi og opnaði símann tók ég eftir því að Kári Steffensen hafði farið mikinn í Kastljóssþætti, sem þá var nýlokið. Má segja að Kári sé sérfræðingur í öllu, öðrum fremri, og þar fékk ég og þjóðin öll ókeypis fræðslu um sóttvarnir og ekki síður lögfræði. Hann er sérfræðingur að sunnan og býr sennilega alveg syðst á landinu,“ segir Brynjar í færslunni.
Segir ferðina ekki hafa verið óþörf
Brynjar segist þá alltaf hafa haft frekar gaman af hrokafullum mönnum. „Dass af hroka getur stundum verið nauðsynlegt til að koma viti í umræðuna. En þegar hrokinn er bara hluti af óstjórnlegu frekjukasti missir hann marks og allur sjarmi hverfur. Þess vegna tapaði Donald Trump kosningunum síðast.“
Þá finnst Brynjari rétt að taka fram að þessi utanlandsferð hafi verið fjarri því að vera óþörf. „Deila má um hvort hún hafi verið bráðnauðsynleg. Þannig stendur á að elsti bróðir minn býr á Spáni ásamt konu sinni, sem fékk alvarlegt heilablóðfall fyrir tæpu ári síðan,“ segir Brynjar. „Hugsunin var sú að við bræður hans kæmum ásamt eiginkonum til að létta undir með honum í smá tíma. Einnig að gefa honum kost á að eiga stund með bróður okkar, sem glímir við Alzheimer, áður en hugurinn hverfur alveg.“
„Annað hvort fullkomnir fávitar eða að kveðja stjórnmálin“
Brynjar segist hafa skynjað heift og reiði í sinn garð frá Kára í Kastljósi gærkvöldsins. „Þessi heift og reiði í minn garð sem skynja mátti hjá Kára í umræddum Kastljóssþætti er augljóslega vegna gagnrýni minnar á aðgerðir yfirvalda í tengslum við frelsissviptingar á sóttvarnahóteli, sem voru alltof víðtækar og auk þess augljóslega ólögmætar,“ segir Brynjar.
„Geri mér grein fyrir því að sjónarmið Kára hafa víðtækan hljómgrunn í samfélaginu og ætla má að stjórnmálamenn sem tali gegn þeim séu annað hvort fullkomnir fávitar eða að kveðja stjórnmálin.“
Hefur áhyggjur af eiginkonunni
Brynjar segir þá að það megi ekki ganga lengra gegn réttindum fólks en nauðsynlegt er og lög heimila. „Það er hins vegar hætt við að það vefjist ekki fyrir fólki að samþykkja slíkt þegar óttinn og hræðslan er alls ráðandi. Með aðgerðum sem skerða réttindi fólks meira en góðu hófi gegnir getum við nefnilega skaðað samfélagið meira en veiran sjálf.“
Að lokum segist Brynjar ekki vera á móti sóttvarnaaðgerðum og að hann hafi aldrei verið það. „Geri engar athugasemdir við að vera í sóttkví heima hjá eftir þessa ferð og uni því vel. Stjórnvöld hafa að mestu leyti staðið sig vel og gera það vonandi áfram.“
Brynjar botnar svo pistilinn með húmor eins og hann gerir gjarnan. „Einu áhyggjur mínar í augnablikinu eru af því hvernig eiginkonunni muni reiða af eftir að hafa setið föst með mér í fimm daga.“
https://www.facebook.com/brynjar.nielsson/posts/1918238065007364